Innlent

Hæsti­réttur stað­festir sýknu­dóm í hóp­nauðgunar­málinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einn ákærðu leiddur fyrir dómara eftir handtöku í maí 2014.
Einn ákærðu leiddur fyrir dómara eftir handtöku í maí 2014. Vísir/Daníel
Hæstiréttur hefur staðfest sýknudóm yfir fimm ungum karlmönnum sem ákærðir voru af ríkissaksóknara fyrir að nauðga í sameingu sextán ára stúlku í maí árið 2014. Um leið var þrjátíu daga skilorðsbundinn dómur yfir einum hinna fimm vegna upptöku myndbands sem sýndi kynferðismörkin að hluta staðfestur. Hann þarf að greiða stúlkunni hálfa milljón króna í bætur.

Hæstiréttur ómerkti aftur á móti sýknudóm yfir sama manni sem sneri að sýningu myndbandsins í matsal Fjölbrautarskólans í Breiðaholti. Verður ákæruliðurinn sem snýr að sýningu myndbands því tekinn fyrir að nýju.

Ríkissaksóknari hafði farið fram á að vitnisburður yrði endurtekinn frammi fyrir Hæstarétti. Þeirri kröfu var hafnað af Hæstarétti. Málið hefur verið fyrir dómstólum í tvö og hálft ár.  Dómurinn verður birtur á vef Hæstaréttar klukkan 16:30.

Ákæra um sýningu tekin fyrir á ný

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa annars vegar myndað hluta af kynferðismökunum með upptökubúnaði, eins og segir í ákæru. Hins vegar að hafa í matsal í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti sýnt nemendum framangreint myndefni.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að manninn bæri að sýkna af ákæruliðnum sem sneri að sýningu þar sem ósannað væri, gegn neitun hans, að hann hefði sýnt myndbandið í skólanum. Ungi maðurinn hefur borið að síminn hafi verið tekinn af honum. Hann hafi aðeins sýnt meðákærðu myndbandið sem hafi sagt honum að eyða því. Það hafi hann gert.

Var það mat héraðsdóms að enginn trúverðugur vitnisburður hefði komið fram um að ákærði hefði sýnt samnemendum stúlkunnar upptökuna í matsalnum. Ekki var leitað eftir upptökum úr eftirlitsmyndavélum skólans þrátt fyrir að lögregla hafi fengið ábendingu um að gera það. Þannig hefði mátt sannreyna hvort síminn hefði verið tekinn af ákærða. 

Hæstiréttur ómerkti dóminn úr héraði og því verður ákæruliðurinn er snýr að sýningu myndbandsins tekinn fyrir að nýju.

 


Tengdar fréttir

Allir sýknaðir af hópnauðgun

Fimm piltar á aldrinum 18-21 árs hafa verið sýknaðir af ákæru um nauðgun á sextán ára stúlku í samkvæmi í Breiðholti í maí í fyrra. Einn var sakfelldur fyrir að taka atvikið upp.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×