Lífið

Hádegistónleikar í Hallgrímskirkju

Douglas A. Brotchie, organisti Háteigskirkju heldur hádegistónleika í Hallgrímskirkju.
Douglas A. Brotchie, organisti Háteigskirkju heldur hádegistónleika í Hallgrímskirkju.
Fimmtudaginn 20. júlí leikur Douglas A. Brotchie, organisti Háteigskirkju, á hádegistónleikum tónleikaraðarinnar Alþjóðlegs orgelsumars í Hallgrímskirkju.

Tónleikarnar, sem byrja kl. 12, hefjast á Kornelíusarmarsi eftir Felex Mendelssohn sem upphaflega var skrifaður fyrir hljómsveit árið 1841. Næst á eftir leikur Douglas Prelúdíu og fúgu í G-dúr eftir J. S. Bach. Þriðja verkið er Mozart Changes eftir ungverska tónskáldið Zsolt Gárdonyi sem hann skrifaði fyrir Mozart tónlistarhátíðina í Oklahoma árið 1996. Þar vinnur hann með stef úr einum píanókonserta Mozarts á mjög skemmtilegan hátt. Tónleikunum lýkur með einu þekktasta orgelverki franska orgelskólans Adagio og Tokkötu úr 5. orgelsinfóníu Charles-Marie Widor.

Douglas A. Brotchie er fæddur í Edinborg í Skotlandi. Hann byrjaði að læra á orgel um fermingaraldur og 16 ára var hann fastráðinn organisti og kórstjóri við Balerno sóknarkirkjuna, kirkju sem er staðsett í þorpi sem var á þeim tíma í útjaðri Edinborgar. Douglas flutti til Íslands 1981. Hann lauk kantorsprófi og orgeleinleik­araprófi frá Tónskóla þjóðkirkjunnar, var annar organisti Dómkirkju Krists konungs í mörg ár og var organisti Hallgrímskirkju um eitt ár í leyfi Harðar Áskelssonar. Undanfarin ár hefur Douglas verið organisti Háteigskirkju. Hann hefur haldið tónleika víða um Evrópu, bæði sem meðleikari, m.a. með Söngsveitinni Fílharmóníu, Mótettukór Hallgrímskirkju og Schola cantorum svo og sem einleikari. Hann hefur oft komið fram sem organisti í sjónvarpi og útvarpi og hefur auk þess leikið inn á fjölda geisladiska.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×