Lífið

Gyllenhaal hreifst af íslensku stelpunum

Miklir fagnaðarfundir voru í Leifsstöð á mánudag þegar Sigurjón Sighvatsson og Jake Gyllenhaal hittust fyrir algjöra tilviljun.
Miklir fagnaðarfundir voru í Leifsstöð á mánudag þegar Sigurjón Sighvatsson og Jake Gyllenhaal hittust fyrir algjöra tilviljun.
„Ég var að koma heim frá Ástralíu þar sem við vorum að hljóðblanda nýjustu myndina mína, The Killer Elite, og rakst þá á Jake í flughöfninni,“ segir Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi með meiru. Hann hitti Jake Gyllenhaal á mánudaginn í flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar leikarinn var að yfirgefa landið eftir ævintýralega helgi.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í vikunni var bandaríski stórleikarinn Jake Gyllenhaal staddur hér á landi yfir helgina við tökur á ævintýraþættinum Man vs. Wild sem Bear Grylls stjórnar. Tökur fóru fram í aftakaveðri á Eyjafjallajökli og Fimmvörðuhálsi en það var True North sem aðstoðaði tökuliðið. Alls unnu tuttugu starfsmenn að tökunum en mikil leynd hvíldi yfir þeim.

Leiðir Sigurjóns og Jake Gyllenhaal hafa legið saman áður; Gyllenhaal lék aðalhlutverkið í hinni dramatísku kvikmynd Brothers sem Sigurjón framleiddi og skartaði einnig Natalie Portman og Tobey Maguire í stórum rullum. „Þetta var algjör tilviljun og það var virkilega skemmtileg að hitta hann. Hann talaði ákaflega fallega um landið og náttúrlega tökurnar uppi á jökli þar sem hann lenti nánast í lífsháska með þessum Bear Grylls,“ segir Sigurjón „Jake átti ekki orð yfir hvað Ísland væri frábært og hann vildi koma hingað aftur sem fyrst í frí. Það hafði víst líka eitthvað að gera með stelpurnar,“ segir Sigurjón kankvís. -fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×