Sport

Gunnar Nelson mætir Alexander Butenko

Kristján Hjálmarsson skrifar
Gunnar Nelson.
Gunnar Nelson. Mynd/Stefán
Bardagakappinn Gunnar Nelson mun mæta Alexander "Iron Capture" Butenko frá Rússlandi í Cage Contender keppninni í Dublin á Írlandi þann 25. febrúar næstkomandi. Butenko þessi er gríðarlega öflugur bardagamaður en hann hefur unnið tólf af sextán bardögum, þar af tíu af síðustu ellefu.

Butenko hefur getið sér mjög góðs orðs austantjalds undanfarin ár og er talinn ein skærasta vonarstjarnan austantjaldsþjóða í veltivigt í MMA en hann var í 9. sæti á sameiginlegum MMA styrkleikalista Rússa, Hvít-Rússa og Úkraínumanna í veltivigt í fyrra.

Butenko er með svart belti bæði í brasilísku jiu jitsu og í combat sambo sem er mjög þekkt bardagaíþrótt í Rússlandi og nágrannríkjunum en bardagaíþróttir eru gríðarlega vinsælar austantjalds. Butenko æfir með bræðrunum Aleksander og Fedor Emelianenko ásamt Igor Vovchanchin og náfrænda sínum Alexey Oleinik. Þess má geta að Fedor er af mörgum talinn besti MMA bardagamaður allra tíma.

Þetta verður tíundi bardagi Gunnars Nelson í MMA en hann er ósigraður hingað til í sportinu með 8 sigra og eitt jafntefli sem kom í hans fyrsta bardaga. Bardagi Gunnars og Butenko verður aðalbardagi Cage Contender í Dublin.

Gunnar verður þó ekki eini Íslendingur sem keppir þar því Árni "úr járni" Ísaksson verður einnig meðal keppenda. Hann mætir Chris Brennan frá Bandaríkjunum. Gunnar og Árni hafa verið við stífar æfingar að undanförnu með keppnisliði bardagafélagsins Mjölnis en þar er Gunnar yfirþjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×