Innlent

Gullæð skáldsins fundin

Í rúma öld hafa Íslendingar reglulega gert út vísindamenn til að grafast fyrir um það hvort gull sé hér að finna í vinnanlegu magni. Lengi var talið að svo væri ekki en saga gullleitar á Íslandi er þó bæði litríkari og með meiri ólíkindum en margan grunar

Niðurstöður rannsóknaborana í Þormóðsdal í Mosfellssveit benda til þess að gullæð sé fundin. Í borkjörnum hefur greinst svo mikið magn þessa dýra málms að hann er talinn í vinnanlegu magni. Það er þvert á fyrri rannsóknaniðurstöður. Sagan geymir hins vegar frásagnir af því að Einar Benediktsson, skáld og athafnamaður, hafi verið þess fullviss að í Þormóðsdal lægi gullæð ein rík. Svo virðist sem skáldið hafi haft rétt fyrir sér þótt því tækist ekki að sanna það á sinni tíð.

Allt Austurland undir

Í sögulegu ljósi er þess skemmst að minnast að fyrirtækið Platína Resources Ltd. sótti á vormánuðum 2010 um rannsóknaleyfi til gullleitar hér á landi. Þá var allt Austurland undir þar sem gullleitarleyfi annars staðar á landinu voru í eigu Íslendinga. Var ætlun félagsins að gera út tvo hópa vísindamanna til leitar um tveggja mánaða skeið, en svo fór að gullleitarmennirnir, sem voru ástralskir, drógu umsókn sína um leitarleyfi til baka.

Bara 20 milljónir ára

Flestir hafa gengið út frá því sem vísu að gull væri einfaldlega ekki til staðar í íslensku bergi. Ástæðan sem helst er nefnd er einfaldlega sú að í jarðfræðilegum skilningi er bergið allt of ungt hér, og móður jörð hafi ekki gefist tími til að aðskilja dýra málma frá berginu. Á líklegustu svæðunum hér á landi er elsta bergið yngra en 20 milljóna ára gamalt, sem er mjög ungt borið saman við þau svæði sem mest gefa af sér. Þar er bergið nokkurra milljarða ára gamalt, svo samhengis sé gætt.

Gullmýri

Þrátt fyrir efasemdir eigum við Íslendingar okkur sögu gullleitarmanna og meira að segja gullæðis, eins og það er jafnan skilgreint. Allir þekkja söguna af gullfundinum í Vatnsmýrinni árið 1905. Þá þóttust menn sjá glóa af gulli á bortönn og upphófst reyfarakennd atburðarás sem stóð í fimm ár.

Tilurð málsins var að verið var að bora eftir vatni við rætur Öskjuhlíðar. Járnsmiður nokkur, Ólafur Þórðarson, sem fenginn var til að brýna bortönnina, sagði að svo þykkar hefðu gullskánirnar verið að hann hefði tálgað þær af með vasahnífnum sínum. Gullæði braust út. Fjársterkir menn buðu sig fram og vildu taka þátt í ævintýrinu. Hlutafélagið Málmur var stofnað um gullvinnsluna. Mýrarflákinn í miðjum höfuðstaðnum var nefndur upp á nýtt og var nú kenndur við gull.

Gullleit í Vatnsmýrinni stóð næstu árin en árangurinn var enginn. Nokkur hundruð sýni voru tekin og greind af efnafræðingi ríkisins, Ásgeiri Torfasyni. Sagan segir að eitt þeirra hafi sýnt vott af gulli. Hægt og bítandi rann upp fyrir flestum sú staðreynd að enginn yrði ríkur af því að vinna gull úr bæjarlandinu.

Miðdalsjörð til Ástralíu

Gullleit einangraðist ekki við Vatnsmýrina í Reykjavík á upphafsárum 20. aldarinnar. Einar H. Guðmundsson, bóndi í Miðdal í Mosfellssveit, sendi um svipað leyti sýnishorn úr landi sínu til frænda síns Steingríms Tómassonar, sem hafði um langt skeið fengist við gullleit í Ástralíu og var þar búsettur. Steingrími fannst sýnin álitleg og kom heim árið 1908 til frekari rannsókna að tilstuðlan Einars Benediktssonar, skálds og athafnamanns. Niðurstaða Steingríms var að gull væri vissulega að finna í landi Miðdals og einnig Þormóðsdals, beggja vegna Seljadalsár sem skilur á milli jarðanna tveggja.

Steingrímur dvaldi á Íslandi um skeið og hélt svo aftur til Ástralíu með sýni úr Miðdal. Nákvæmari rannsóknir þar í landi staðfestu að gull væri í nægjanlega miklu magni á jörðunum tveimur til að það borgaði sig að vinna það. Steingrímur sótti um gullleitarheimild til sýslumanns árið 1908 en var þó ekki einn um það. Björn Kristjánsson alþingismaður sótti einnig um heimild til leitar en hann var einn þeirra sem staðfastlega trúðu á að gull væri hér í vinnanlegu magni. Hann hafði sterkt bakland. Tryggvi Gunnarsson bankastjóri og Sveinn Björnsson, lögmaður og síðar forseti, voru meðal þeirra sem vildu bita af kökunni.

Um þetta leyti voru mældir út námuteigar í landi Þormóðsdals, alls 77 talsins. Á þessum tíma var Einar Ben ekki langt undan og afskipti hans byrjuðu fyrir alvöru eftir að Einar í Miðdal bað nafna sinn um að vera umboðsmaður sinn í Englandi, sennilega 1909.

Einar Ben

Fyrstu skjalfestu heimildir um aðkomu Einars Ben að gullleit eru skýrsla sem hann skrifar um málið til samstarfsmanna sinna í Englandi árið 1910, auk bréfaskrifta til yfirvalda hér. Kannski var ekki við öðru að búast af Einari en að hann gengi í málið af alefli; það var hans von og vísa. Málflutningur hans í fyrrnefndri skýrslu ber af þessu keim en Einar fullyrðir að gullæðin liggi þvert yfir landareignina og reyndar langt út um héraðið.

Hrossakaupin í kringum námurnar í Miðdal og Þormóðsdal væru í dag nefnd „flókin viðskiptaflétta". Guðjón Friðriksson hefur gert grein fyrir þeim kafla þessarar sögu í ágætri ævisögu skáldsins. Hér er rétt að nefna að árið 1911 komu hingað til lands sérfræðingar á vegum Einars og viðskiptafélaga hans og unnu að víðtækum rannsóknum næstu tvö ár. Voru það bæði verkfræðingar og þaulvanir námuverkamenn víða að úr Evrópu. Þegar stríð braust út í Evrópu 1914 lognaðist verkið út af.

Engin hreyfing var á málum þar til 1921. Tveimur árum síðar komst Einar í samband við þýskt félag, Nordische Bergbau Gesellschaft í Hamborg, sem sendi hingað sérfræðinga og lagði til gríðarlega fjármuni til rannsókna. Áhuginn fjaraði þó fljótt út. Einar fann nýjan samstarfsaðila og stofnaði námafélagið Arcturus sem stóð fyrir framkvæmdum árið 1925. Í frétt Morgunblaðsins þetta ár segir að þá hafi tíu til tuttugu manns unnið við námuna og námugöngin hafi verið orðin um 60 metra löng og tíu metra djúp. Hins vegar fer litlum sögum af árangri gullleitarinnar þessi ár.

Gullríka kalkið

Fyrrnefndur alþingismaður, Björn Kristjánsson, einbeitti sér að gullleit í næsta nágrenni, nánar tiltekið í Esjunni við Mógilsá. Í Mógilsá var áhuginn í upphafi tengdur kalknámi. Egill Egilsen, sonur Sveinbjarnar rektors Egilssonar, var upphafsmaður þess upp úr 1870. Egill naut þar aðstoðar Björns sem gerði aðra tilraun til kalknáms árið 1917. Sú tilraun fjaraði út að stuttum tíma liðnum en á sama tíma vaknaði grunur um að gull væri að finna í kalkinu og sýndu efnagreiningar sem Björn lét gera að tíu til 26 grömm voru vinnanleg úr hverju tonni bergs. Þessar niðurstöður voru hafðar að háði og spotti eftir að Björn birti niðurstöður sínar í tímaritinu Vöku árið 1919. Árið 1929 fékk Björn uppreisn æru þegar Trausti Ólafsson efnagreindi kalksýni sem staðfestu að niðurstöður Björns voru á rökum reistar.

Hvað geymir Drápuhlíðarfjall?

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur skrifaði fyrir nokkrum árum pistil á ágæta vefsíðu sína um gullleit í Drápuhlíðarfjalli á Snæfellsnesi árið 1939. Áttu þar í hlut Magnús G. Magnússon, útgerðarmaður frá Ísafirði, og Sigurður Ágústsson, kaupmaður í Stykkishólmi. Haraldi segist svo frá: „Magnús kemur hingað frá Boston með skip sitt og áhöfn, sérfræðinga og allan útbúnað til gullleitarinnar. Þeir fluttu með sér borvél, vigtir, bræðsluofn, kemísk efni og annan útbúnað til að rannsaka bergið í Drápuhlíðarfjalli. Þá stofna þeir Magnús og Sigurður Hartmansfélagið til gullleitarinnar. Magnús útbjó rannsóknarstofu í eldhúsinu í gamla samkomuhúsinu í Stykkishólmi, […] Mikið var starfað í norðanverðu fjallinu þetta sumar, og aðallega í tveimur giljum fyrir ofan bæinn Drápuhlíð, sem nú er í eyði."

Vitað er að þeir Magnús og Sigurður fengu jákvæðar niðurstöður í gullleitinni. Taldi Magnús niðurstöður sínar svo góðar að hann taldi að íslenska ríkið „gæti greitt allar sínar skuldir með námuhagnaðinum".

Ekki fullreynt í „Gullmýrinni"

Það er því kannski við hæfi að ljúka þessari brotakenndu frásögn um gullleitarmenn fyrri tíma með því að nefna að árið 1937 stóð Helgi H. Eiríksson skólastjóri fyrir því að fenginn var kjarnabor til landsins til þess að gera aðra tilraun í Vatnsmýrinni. Boruð var tæplega 60 metra djúp hola en ekkert fannst gullið, frekar en fyrrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×