Innlent

Mikill reykur úr gufunni

Jóhannes Stefánsson skrifar
Reyk og gufu lagði úr gufubaðinu.
Reyk og gufu lagði úr gufubaðinu. Vísir/Valli
Uppfært kl 17:04:

„Það kom upp eldur í gufubaði sem er í bakhúsi gistiheimilisins Baldursbrá. Þetta er á horni Laufásvegar og Baldursgötu,“ segir Haukur Viðar Alfreðsson, fréttamaður á Vísi. Haukur varð vitni að bruna sem kom upp í gufubaði á Laufásveginum.

„Gufubaðið er gjörónýtt og eldtungurnar stóðu marga metra upp í loftið þannig að það sviðnuðu tré á lóðinni. Það var enginn inni í gufubaðinu og það er enginn á slysadeild,“ segir Haukur.

„Það gekk vel að slökkva eldinn slökkviliðið sagði að það væri ekki tekinn séns á neinu í svona gömlu hverfi þar sem er mikið af timburhúsum,“ bætir Haukur við, en nokkur viðbúnaður var af hálfu slökkviliðs vegna eldsins.

„Það er enginn að fara í gufu þarna á næstunni," segir Haukur að lokum.

---

Gufubað í bakgarði á Laufásvegi stendur í ljósum logum og slökkviliðsmenn eru nú að reyna að ráða niðurlögum eldsins. Ekkert liggur fyrir um hvort fólk sé í hættu.

„Við sendum tvo bíla á svæðið. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu logar glatt í gufubaðinu," segir varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Eldurinn er í bakgarði húss við Laufásveg. Engar upplýsingar fengust um það hvort fólki stafaði hætta af eldinum eða hvort einhver hefði slasast í eldinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×