Handbolti

Guðmundur Guðmundsson: Stórkostleg upplifun

Arnar Björnsson í Katar skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins. Vísir/Eva Björk
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins, var ánægður með sigurinn á Íslendingum í gær. En var hann ekki með smá móral yfir því að hafa unnið þá svona örugglega?

„Jú ég er það en það þýðir ekkert að vera að hugsa um það. Ég er að starfa fyrir danska landsliðið og maður gefur allt í það sem maður á.  Þegar maður tekur þátt í íþróttaleik þá undirbýr maður sitt lið og er með algjöra einbeitingu á því að finna leiðir til að brjóta niður íslensku vörnina og sóknarleik þeirra. Þetta er svona ískalt og maður getur ekkert verið að fara í einhverjar tilfinningar gagnvart þessu. Ég þakkaði auðvitað íslensku leikmönnunum fyrir leikinn því mér fannst það mikilvægt," sagði Guðmundur.

Guðmundur er mikill keppnismaður og oft þegar hann stýrði íslenska landsliðinu var hann ekkert að skipta of mikið þrátt fyrir að öruggur sigur væri í vændum, hann vildi alltaf meira. Auðveldaði það honum að hvíla lykilmenn Dana í lokin þegar sigur þeirra dönsku blasti við.“

„Ég vil ekki segja það. Það var mikilvægt fyrir okkur að hvíla menn. Við vorum kannski búnir að vinna leikinn og því mikilvægt að hvíla ákveðna lykilmenn því okkar bíður erfiður leikur," sagði Guðmundur.

Þú vildir ekki vinna leikinn með of miklum mun?

„Það er nú bara eins og það er en þetta þróaðist bara svona. Mér fannst Íslendingar berjast allan tímann og þeir gáfu allt í þetta. Það var til fyrirmyndar að þeir héldu allir áfram og ótrúlegt að sjá mann eins og Alexander Petersson sem gaf allt í þetta fram á síðustu sekúndu. Mér fannst það í raun stórkostleg upplifun," sagði Guðmundur.

Það er hægt að sjá allt viðtalið við Guðmund hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×