Handbolti

Guðjón Valur fær samkeppni hjá Barcelona | Alfreð missir lykilmann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er Spánar- og Evrópumeistari.
Guðjón Valur Sigurðsson er Spánar- og Evrópumeistari. vísir/afp

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handbolta, á von á mikilli samkeppni í vinstra horninu hjá Evrópumeisturum Barcelona verði hann áfram hjá liðinu á næstu leiktíð.

Valero Rivera, hornamaður spænska landsliðsins, er á leið heim frá Nantes í Frakklandi, en hann er talinn, eins og Guðjón Valur, vera einn albesti hornamaður heims.

Valero Rivera er á heimleið.vísir/afp

Rivera, sem er sonur alnafna síns Valero Rivera, þjálfarans sem gerði Spán að heimsmeisturum 2013, er næst markahæstur í frönsku 1. deildinni með 83 mörk. Aðeins Mikkel Hansen, stórskytta Paris Saint-Germain, er búinn að skora meira eða 100 mörk.

Nantes, sem er í sjötta sæti í Frakklandi, er búið að finna arftaka Rivera, samkvæmt handboltavefsíðunni handnews.fr. Það er Dominik Klein, hornamaður Þýskalandsmeistara Kiel.

Klein er frá keppni þessa dagana eftir að slíta krossband undir lok síðasta tímabils, en þessi frábæri 32 ára gamli hornamaður hefur sjö sinnum fagnað Þýskalandsmeistaratitlinum með Kiel og þrisvar sinnum orðið Evrópumeistari.

Áfram heldur Alfreð Gíslason að missa leikmenn en í sumar fóru frá liðinu Aron Pálmarsson, Filip Jicha, Rasmus Lauge og Waol Jallouz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×