Enski boltinn

Guardiola bíður enn eftir afsökunarbeiðni úr herbúðum Yaya Toure

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola og Yaya Toure.
Pep Guardiola og Yaya Toure. Vísir/Getty
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur áhuga á því að taka Yaya Toure aftur inn í liðið en áður að það gerist þá þarf spænski stjórinn að fá afsökunarbeiðni.

Guardiola vill fá afsökunarbeiðni frá umboðsmanni leikmannsins. Yaya Toure hefur aðeins spilað einn leik á tímabilinu og er ekki í Meistaradeildarhópi liðsins.  BBC segir frá.

Dimitri Seluk, umboðsmaður Manchester City, talaði um það opinberlega að Pep Guardiola hafi niðurlægt Yaya Toure með þeirri ákvörðun að setja hann ekki á listann yfir þá leikmenn City sem mega spila í Meistaradeildinni í vetur.

Þegar Pep Guardiola var spurður út í það hvort Yaya Toure fengi að spila í borgarslagnum á móti Manchester United í enska deildabikarnum svar svarið einfalt: „Þið þekkið stöðuna,“ svaraði Pep Guardiola.  „Ég vildi að ég gæti notað Yaya Toure, trúið mér, en staðan er bara svona," bætti hann við.

Pep Guardiola hafði áður sagt í september að Dimitri Seluk verði að biðja hann afsökunar ef Yaya Toure ætti að fá að spila í aðalliðinu á nýjan leik.

Dimitri Seluk taldi sig þá ekki þurfa að afsaka neitt og benti Guardiola á að ræða við Yaya Toure því leikmaðurinn væri að standa sig í vinnunni.

Manchester City vann fyrstu tíu leiki sína undir stjórn Pep Guardiola en hefur nú ekki unnið í fimm leikjum í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×