Innlent

Grimmilegur hollenskur geitungur veldur usla

Jakob Bjarnar skrifar
Geitungurinn var enginn aufúsugestur á heimilinu í Borgarnesi; þar sem til stóð að gæða sér á fersku salati.
Geitungurinn var enginn aufúsugestur á heimilinu í Borgarnesi; þar sem til stóð að gæða sér á fersku salati. Erling Ólafsson
Nú gengur á netinu myndbandsbrot af salatpoka hvar í er sprelllifandi geitungur sem vill komast út.

Eftirgrennslan Vísis leiddi í ljós að salatpokinn er keyptur í Nettó í Borgarnesi. Konunni sem keypti pokann brá í brún þegar hún sá geitunginn og dóttir hennar, Lísa Sigurðardóttir, dreifir myndbandsbrotinu með vel völdum orðum.

„Þetta er ekki bara einhver fluga, hún stingur og hvað veit maður hvort hún sé með óþol fyrir stungum eða hvað.. átti hún bara opna pokann og hleypa henni út og vera stunginn bara svo hún gæti fengið sér salat.. og þetta er geitungur sem við sjáum ekki hér heima, þó ég ætli ekki að sverja fyrir það. tek það fram að þeir buðu henni ekki einu sinni að borga henni til baka fyrir rándýra salat pokann sem hún henti!!!“

Mamma fékk geitung í salatið sitt og hringir í aðilann sem flytur þetta inn.. þeirra svör voru æjj en leiðinlegt opnaðu ...

Posted by Lisa Sigurðardóttir on 11. júní 2015
Lísa er reið vegna þessarar óvæntu sendingar sem móðir hennar fékk og hvetur fólk til að skoða vel salatpokana áður en þeir eru opnaðir, „guðanna bænum“ ekki sé nóg að skola vel.

Verslunarstjóri í Nettó í Borgarnesi er Ingibjörg Kristín Gestsdóttir, og hún segist aldrei hafa lent í þessu fyrr. Og það sé auðsótt mál fyrir konuna, beri hún sig eftir því, að fá salatpokann endurgreiddan. En, þetta sé í raun ekki mál þeirra í búðinni, því þau fá salatpokana frá Búr og selji þá beint.

Laumufarþegi frá Hollandi

Kolbeinn Ágústsson rekstrarstjóri er fyrir svörum hjá Búr og hann segir að sjálfsagt sé að endurgreiða konunni, en það kannist enginn við að nokkur hafi hringt og leitað eftir slíku hjá fyrirtækinu. Salatpokunum er pakkað í Hollandi, koma með fraktflugi frá Belgíu og því sé um hollenskan geitung að ræða. „Þó þetta fari í gegnum mikinn „prósess“ þarna úti, koma einstaka sinnum aðskotahlutir; flugur, fiðrildi og nú geitungur, þetta er náttúrlega náttúruna. Sumir eru með fóbíu fyrir þessu og það verður bara að taka því. Þegar fólk hefur samband við okkur, þá reynum við yfirleitt að gera eitthvað fyrir það. Sumir fara með þetta beint í blöðin. En, ég held að skilningur sé orðinn meiri en var á því að þetta getur gerst,“ segir Kolbeinn hjá Búr -- og hefur það að geitungurinn hafi verið sprelllifandi til marks um að salatið sé ferskt.

„Þetta er eins ferskt og hugsast getur, pakkað í Hollandi seint um kvöld og flutningsleiðin, frakt frá Belgíu, og beint hingað. Klárað úti, miðað frá okkur. Við höfum flutt þetta salat inn í að minnsta kosti tíu ár og fólk verið ánægt með það. Vinsælt salat alla tíð.“



...

Leiðrétting. Fyrir mistök fór blaðamaður línuvillt á heimasíðu Búrs, í lista yfir starfsmenn fyrirtækisins og var Benedikt Kristjánsson söludeild óvart hafður fyrir orðum Kolbeins Ágústssonar rekstrarstjóra. Benedikt setti sig í samband við blaðamann, honum var mjög í mun að tekið væri fram að það var ekki hann sem ræddi við blaðamann Vísis, heldur Kolbeinn, eðlilega því nafn Benedikts er þekkt; rétt skal vera rétt og eðlilegt að blaðamenn gangist við mistökum sínum. Er blaðamanni bæði ljúft og skylt að leiðrétta þessi mistök, halda þeim til haga með þessum hætti og eru lesendur, allir hlutaðeigandi og þá ekki síst Benedikt sjálfur, beðnir innilega afsökunar með von um að þessi meinlegu mistök komi ekki að sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×