Erlent

Gríðarmiklar sprengingar í vopnageymslu í austurhluta Úkraínu

Atli Ísleifsson skrifar
Vopnageymslan er í bænum Balakleya í Kharkov-héraði.
Vopnageymslan er í bænum Balakleya í Kharkov-héraði.
Miklar sprengingar urðu í gríðarstórri vopnageymslu í austurhluta Úkraínu í morgun. Verið er að flytja um 20 þúsund manns frá svæðinu, en vopnageymslan er í bænum Balakleya í Kharkov-héraði.

Í frétt BBC er vísað í úkraínska fjölmiðla þar sem fullyrt er að um skemmdarverk sé að ræða. RT greinir frá því að vopnageymslan sé sú stærsta í landinu.

Herinn segir að geymslan sé á svæði sem spannar meira en 350 hektara.

Í desember 2015 var gerð tilraun til þess að kveikja í vopnageymslunni.

Stepan Poltorak, varnarmálaráðherra Úkraínu, segir yfirvöld reyna að komast að því hvernig atvikið orsakaðist. Meðal þess sem verið er að skoða er hvort að sprengju hafi verið varpað á geymsluna úr dróna.

Engar fregnir hafa borist af dauðsföllum meðal borgarar og hermanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×