Gríðarlegt öskumistur var yfir fjöllunum austan við Vík í Mýrdal í dag. Á köflum var skyggnið á þjóðveginum ekki nema nokkrir tugir metrar á milli Víkur og Skaftafells og þurftu ökumenn að hægja á sér til að lenda ekki í ógöngum.
Mistrið lá yfir Suðurlandsundirlendinu og náði alla leið til Reykjavíkur, því eins og lesendur Vísis gátu lesið um fyrr í dag varaði Reykjavíkurborg við mögulegri svifryksmengun.
Askan sem þarna þyrlast um kemur af svæðinu við Grímsvötn þar sem gaus í fyrra.
Kristján Már Unnarsson fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2 og Sigurjón Ólason myndatökumaður voru á ferð um Suðurland í dag. Ferðinni verður gerð ítarleg skil í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Gríðarlegt öskumistur á Suðurlandi
Jón Hákon Halldórsson skrifar
