Erlent

Google fjárfestir í skeið fyrir parkinson-veika

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Góður árangur hefur þegar náðst með skeiðina.
Góður árangur hefur þegar náðst með skeiðina. Vísir / AP
Google hefur fjárfest í þróun á skeið sem bregst við skjálfta þess sem á henni heldur. Skeiðin nýtist því til að mynda þeim sem glíma við parkinson-veiki. Skeiðin nemur skjálfta í hendi þess sem á henni heldur og bregst við þannig að það sem er í skeiðinni helst stöðugt.

„Við viljum hjálpa fólki í þeirra daglega lífi og vonandi auka á skilning á sjúkdómnum til lengri tíma,“ segir Katelin Jabbari, talsmaður Google. Góður árangur hefur þegar náðst með skeiðina en í tilraunum hefur komið í ljós að hún dregur úr allt að 76 prósent af skjálfta hjá þeim sem notar hana. 

Meira en tíu milljónir manna um heim allan berjast við parkinson-veiki og skjálftana sem henni fylgja. Þar á meðal er móðir Sergey Brin, annars stofnenda Google. Brin hefur sjálfur gefið meira en 50 milljónir dala, jafnvirði sex milljarða króna, til rannsókna á parkinson.

Jabbari segir þó þessi tengsl ekki hafa ráðið för þegar ákveðið var að fjárfesta í verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×