Innlent

Glitnir langt kominn í stefnugerð gegn ríkinu

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Bankaskatturinn á að hluta til að standa undir skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar.
Bankaskatturinn á að hluta til að standa undir skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Vísir/Valli
Slitastjórn Glitnis hf. hyggst stefna ríkinu vegna álagningar bankaskattsins svokallaða sem hefur verið lagður á fyrirtæki í slitameðferð í fyrsta sinn. Þetta staðfestir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, í samtali við Fréttablaðið.

„Skatturinn kemur til greiðslu núna í nóvember, við munum greiða hann með fyrirvara um að það verði látið reyna á lögmæti hans,“ segir Steinunn. Hún segir undirbúning að stefnugerð slitastjórnarinnar langt kominn og gerir ráð fyrir að hún verði birt ríkinu öðrum hvorum megin við áramótin.

Slitastjórnir Landsbankans hf. og Kaupþings hf. munu samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ekki hafa tekið ákvörðun um hvort farið verði að fordæmi Glitnis eða beðið eftir niðurstöðu í því máli sem líklegast væri fordæmisgefandi.

Steinunn Guðbjartsdóttir formaður slitastjórnar Glitnis
Þrotabúin greiða samtals tæplega 35 milljarða í opinber gjöld á þessu ári og eru meðal fimm gjaldahæstu lögaðila landsins, ásamt Ríkissjóði og Landsbankanum hf. Heildarálagning á lögaðila nemur rúmlega 181 milljarði króna sem er hækkun frá því í fyrra um 49,3 prósent. Hækkun á fjárhæð sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki er 3.292 prósent frá því í fyrra en samtals inniheimtir ríkisskattstjóri rúmlega 35 milljarða í þennan skatt.

Þegar ákveðið var að breyta skattinum á þá leið að hann næði einnig til þrotabúa gömlu bankanna kom fram í greinargerð með breytingarlögunum að engin rök væru talin til standa þess að þau skyldu undanþegin þessari skattlagningu, meðal annars í ljósi þess gríðarlega kostnaðar sem íslenska þjóðarbúið hefði orðið fyrir vegna gjaldþrota gömlu bankanna.

Í umsögn slitastjórnar Glitnis við frumvarp til breytinganna segir að hún telji lagasetninguna brjóta í bága við ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar, þar á meðal eignarréttarákvæðið og sé bæði ómálefnaleg og órökrétt. Hluta af bankaskattinum á að nota til að greiða fyrir skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar sem kynntar voru í nóvember í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×