Viðskipti innlent

Glitnir fer í nauðasamninga og slitastjórn fer frá

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Glitnir banki fer að öllum líkindum í nauðasamninga og þá taka kröfuhafar bankans við stjórn þrotabúsins án milliliða og slitastjórn bankans verður lögð niður.

Á síðasta degi þingsins í vor var lögum um fjármálafyrirtæki breytt en tekin var upp í lögin tilvitnun í lög um gjaldþrotaskipti og slitastjórnum með því meinað að greiða upp jafnóðum hluta af almennum kröfum undir slitameðferð.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, sagði í samtali við Stöð 2 að eftir þessa lagabreytingu væri ekki hægt að greiða út til almennra kröfuhafa það lausafé sem hefði safnast upp hjá þrotabúinu. Þetta þýddi í raun gjaldþrotameðferð eða nauðasamninga fyrir bankann.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar hefur það verið kynnt fyrir kröfuhöfum Glitnis að setja bankann í nauðasamninga. Samkvæmt lögunum sem samþykkt voru í vor færast störf skilanefnda jafnframt til slitastjórna og gerist það í síðasta lagi 1. janúar 2012.

Þegar bankinn fer í nauðasamninga lýkur slitastjórn störfum slitastjórnar og kröfuhafar taka við bankanum án milliliða og skipa sína eigin stjórnarmenn yfir honum.

Velta má fyrir sér hvaða áhrif þetta muni hafa á ISB Holding, dótturfélag Glitnis, en það heldur utan um 95 prósenta hlut í Íslandsbanka. Það leiðir af eðli máls að ef félagið fer í nauðasamninga taka kröfuhafarnir við allri starfseminni og þar með ISB Holding. Hluturinn í Íslandsbanka er sem kunnugt er í söluferli og er það svissneski bankinn UBS sem annast það fyrir þrotabúið.

Aðspurð hvað þetta þýddi fyrir ISB Holding og eignarhaldið á Íslandsbanka sagði Steinunn of snemmt að svara því. Steinunn sagði að áður en bankinn færi í nauðasamninga þyrfti að leysa úr ágreiningi um kröfur en ágreiningur er um fjögur þúsund kröfur í þrotabú bankans. Hún sagðist telja útilokað að bankinn færi í nauðasamninga á þessu ári og ólíklegt að það næðist á því næsta og vísaði þar til ágreinings um kröfur fyrir dómstólum. thorbjorn@stod2.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×