Enski boltinn

Giroud missti næstum því af leiknum í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud skoraði tvö fyrstu mörkin í 4-0 sigri Arsenal á Hull í gærkvöldi í endurteknum leik liðanna í sextán liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Franski framherjinn var tæpur á því að ná leiknum í gær sem fór fram á heimavelli Hull City.

Ástæðan var sú að kona hans eignaðist þeirra annað barn um nóttina og Giroud talaði um það eftir leik að hann hefði ekki komið í leikinn hefði hún ekki verið búin að eiga. Olivier Giroud tileinkaði nýfæddum syni sínum mörkin en strákurinn fékk nafnið Evan.

„Ég hefði alveg getað misst af leiknum. Ég er ánægður með að strákurinn kom í heiminn um nóttina," sagði Giroud í viðtali við heimasíðu Arsenal.  Giroud skoraði mörkin sín á 41. og 71. mínútu.

„Ég ferðaðist til Hull og vildi tileinka honum mörkin. Ég er því mjög ánægður með að hafa náð að skora," sagði Olivier Giroud sem hafði ekki skorað mark í ellefu leikjum í röð fyrir leikinn í gær.

„Við skoruðum fjögur mörk og héldum hreinu. Það voru því góðir hlutir í gangi í sókn sem vörn," sagði Olivier Giroud en Arsenal tryggði sér með þessum sigri leik á móti Watford í átta liða úrslitunum sem verður strax um komandi helgi.

„Það er alltaf erfitt fyrir framherja þegar hann skorar ekki mörk. Þú verður bara að reyna að halda sjálfstraustinu og leggja þig fram á æfingunum. Ég er mjög glaður með það að hafa komist á blað á ný," sagði Giroud.

„Nú er bara Watford næst og ef við komust áfram þá bíður okkar Wembley," sagði Giroud en það má sjá fyrsta mark hans í spilaranum hér fyrir ofan en hin mörk Arsenal í myndbandinu hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Stærsti grannaslagurinn í 45 ár

Tottenham tekur á móti Arsenal í Norður-Lundúnaslagnum. Hann hefur gríðarlega þýðingu fyrir titilbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar en Arsenal, sem hefur fatast flugið, má ekki við því að tapa enn einu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×