Lífið

Getur einbeitt sér að drykkju á Íslandi

mættur á svæðið Finnski grínistinn André Wickström kemur fram á Kvöldskemmtun Frímanns Gunnarssonar í Háskólabíói í kvöld.fréttablaðið/stefán
mættur á svæðið Finnski grínistinn André Wickström kemur fram á Kvöldskemmtun Frímanns Gunnarssonar í Háskólabíói í kvöld.fréttablaðið/stefán

„Mér finnst þetta frábært verkefni þannig að ég var til í að vera með frá upphafi. Ég fékk tölvupóst frá Ragga og Gunnari [Hanssonum] og var búinn að svara samdægurs,“ segir André Wickström, vinsælasti grínisti Finna.

Wickström kom til landsins á mánudag og kemur fram ásamt hinum danska Frank Hvam og úrvali skemmtikrafta á Kvöldskemmtun Frímanns Gunnarssonar í Háskólabíói í kvöld. Eins og hinir grínistarnir er Wickström einn af þeim sem Frímann heimsækir í þáttunum Mér er gamanmál sem hófu nýlega göngu sína á Stöð 2.

Wickström segist aldrei hafa unnið í jafn afslappandi umhverfi og leikaranum Gunnari Hanssyni og Ragnari, leikstjóra og bróður Gunnars, tókst að skapa. En hvernig var að vinna með Frímanni?

„Söguþráður þáttarins var svo góður að það var ekki erfitt að vinna með Frímanni. En hann er mjög sérvitur,“ segir Wickström og vefst tunga um tönn í leit að fleiri orðum til að lýsa þessum sérstaka karakter.

Wickström kom í fyrstu heimsókn sína til landsins í nóvember á síðasta ári og segist því ekki þurfa að ferðast um landið. „Þá fór ég gullna hringinn og gerði allt þannig að ég þarf ekki að vera svona mikill túristi í þetta skipti,“ segir hann léttur.

„Ég get einbeitt mér að því að drekka ótæpilega sem er kjarni þess að heimsækja Ísland. Ég verð ekki litinn hornauga fyrir að drekka bjór í hádeginu.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×