Skoðun

Geta ólögmæt lán verið í vanskilum?

Lúðvík Bergvinsson og Sigurvin Ólafsson skrifar
Á undanförnum misserum hafa smám saman komið betur í ljós raunverulegar ástæður þess að íslensku bankarnir hófu í stórum stíl að veita einstaklingum og fyrirtækjum gengistryggð lán. Ljóst er að lánveitingarnar hljóta að hafa verið bönkunum afar mikilvægar enda lá fyrir skýrt bann við slíkum lánum í lögum um vexti og verðtryggingu. Ekki er það svo gott að bankarnir geti vísað til þess að þeir hafi ekki vitað af banninu, enda höfðu samtök þeirra andmælt því kröftuglega í umsögn um lagafrumvarpið á sínum tíma.

Íslensk lán dulbúin sem erlend

Nú þegar rykið hefur sest eftir gjaldþrot bankanna, blasir við að markmið þeirra með hinum ólögmætu lánveitingum var fyrst og fremst það að lagfæra gjaldeyrisstöðu sína gagnvart Seðlabankanum, enda höfðu þeir haft takmarkaðan aðgang að erlendum gjaldeyri allt frá vordögum ársins 2006. Þetta var bönkunum erfitt þar sem skuldbindingar þeirra voru fyrst og fremst í erlendum myntum og þeim því mikilvægt að geta á móti sýnt fram á eignir í erlendum myntum. Virðast bankarnir þá hafa brugðið á það ráð að dulbúa lánveitingar sínar innanlands sem lán í erlendum myntum, þó að engar slíkar myntir færu milli aðila við viðskiptin, heldur eingöngu íslenskar krónur. Samningsformin sem bankarnir útbjuggu, og tilvísanir þeirra til erlendra mynta og mynteininga, gerðu bönkunum hins vegar kleift að skrá lánin sem eignir í erlendum myntum í bækur sínar, vegna reglna Seðlabankans um gjaldeyrisjöfnuð. Þessi ólögmætu lán áttu því án efa sinn þátt í því að halda lífi í bönkunum lengur en eðlilegt hefði verið, eða allt fram á haustið 2008, sem olli því að fallið varð þeim mun brattara. Þyngsta byrðin vegna þessarar háttsemi bankanna féll auðvitað á lántakendur þegar krónan féll, enda fólu lánin í sér að öll gjaldeyrisáhættan var sett á herðar þeirra, en megintilgangur bannsins við slíkum lánveitingum var einmitt að koma í veg fyrir það.

Stöðutaka bankanna gegn íslensku krónunni

Annar mikilvægur hvati þess að bankarnir beindu gengistryggðum lánum að viðskiptavinum sínum var sá að bönkunum var vel kunnugt um yfirvofandi lækkun og fall krónunnar, enda gerendur á því sviði. Fjármálafyrirtækjunum var því vel ljóst að jafnvel þó að vextir lánanna væru lágir þá myndi sá munur verða unninn fljótt upp, og rúmlega það, þegar niðursveifla krónunnar hæfist og íslenskir lántakendur þyrftu að greiða afborganir sínar miðað við allt annan og hærri höfuðstól en áður. Í eftirmála hrunsins hefur komið í ljós að bankarnir vissu mun fyrr af þessari stöðu heldur en áður var talið, eins og fjallað er um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og kom fram í vitnaskýrslum bankamanna fyrir Landsdómi. Það leiddi þó ekki til þess að bankarnir legðu gengistryggðu lánin til hliðar eins og eðlilegt hefði verið, heldur voru slíkar lánveitingar þvert á móti stórauknar. Um það geta fyrrum starfsmenn bankanna einnig vitnað, að bankarnir tóku markvisst og skipulega skortstöðu í krónunni á síðustu árunum fyrir gjaldþrot, og eins um það hversu mikið bankarnir högnuðust á þeirri stöðutöku. Þetta gerðu bankarnir í þeim eina tilgangi að verja eigin hagsmuni og hagsmuni stærstu eigenda sinna, umfram hagsmuni viðskiptavina sinna og efnahagskerfisins í heild, enda var starfsemi þeirra þess eðlis að miklu nær var að tala um vogunarsjóði en viðskiptabanka, a.m.k. suma þeirra. Afleiðingin af lækkun krónunnar var sú að virði lánasafns bankanna í ólögmætum gengistryggðum lánum jókst gríðarlega í krónum talið, en bankarnir höfðu margfaldað þær lánveitingar sínar síðustu tvö til þrjú árin áður en þeir féllu. Í reynd er óhætt að fullyrða að bankarnir hafi gert vísvitandi árás á krónuna til að auka virði eignasafna sinna. Í því fólst auðvitað einnig að lántakendur gengistryggðra lána þurftu að horfa upp á skuldbindingar sínar hækka með stöðugum hætti, grunlausir um að "viðskiptabanki" þeirra vann á skipulegan hátt að því að slíkt myndi gerast. Í þessu samhengi er einnig rétt að hafa í huga þau miklu áhrif sem fall krónunnar hafði til hækkunar á stöðu verðtryggðra lána – en þau voru gríðarleg. Allt samfélagið varð því fyrir miklu tjóni vegna þessa. Það er einmitt ábyrgð á þessari hegðan og afleiðingum hennar sem tekist er á um fyrir dómstólum í fjölmörgum málum sem hafa verið höfðuð af þessu tilefni.

Endurskoðun Hæstaréttar

Eins og kunnugt er þá virtist Hæstiréttur með dómum sínum á árunum 2010 og 2011 taka af allan vafa um að þessar lánveitingar bankanna stæðust ekki lög. Nýlega hafa hins vegar fallið nokkrir dómar þar sem þessi tegund lánveitinga hefur verið talin lögmæt, með vísan til þess hvernig lánssamningar hafa í einstaka tilfellum verið útfærðir af bönkunum, þrátt fyrir að tilgangur og framkvæmd lánanna hafi verið nákvæmlega sú sama og í lánum sem áður höfðu verið dæmd ólögmæt. Sú staða er því komin upp að í dómsmálum um þessi lán ræður úrslitum það tilviljanakennda orðalag sem hver og einn banki valdi þegar hann "dulbjó" samningana. Hinir grunlausu lántakendur verða því að treysta á lukkuna og vona að viðskiptabanka þeirra, hinum sérfróða aðila, hafi ekki tekist að dulbúa lánið með fullnægjandi hætti að mati Hæstaréttar. Sem dæmi þá leiðir þetta til þeirrar óeðlilegu og ósanngjörnu stöðu að gengislán sem Glitnir bauð kúnnum sínum standa nú í tvöföldum eða þreföldum höfuðstól, en gengislán sem Landsbanki Íslands bauð kúnnum sínum hafa verið endurútreiknuð og leiðrétt að hluta. Munurinn á milli gjaldþrots og gjaldfærni getur þannig legið í því hvort að lántakandi tók tilboði um gengislán á Kirkjusandi eða í Austurstræti. Heildarniðurstaðan af uppgjöri Hæstaréttar um gengislán bankanna, sem þjóðin beið í ofvæni eftir, er því sú, því miður, að fyrir lántakendur er það tilviljun háð hvort að gengislán þeirra teljist lögmæt eða ólögmæt. Útaf fyrir sig er sú niðurstaða óeðlileg og ósanngjörn, en sú staða verður enn alvarlegri þegar fyrrgreind háttsemi og ástæður bankanna fyrir lánveitingunum eru hafðar í huga.

Geta ólögmæt lán verið í vanskilum?

Eins og að framan er rakið hafa fallið Hæstaréttardómar þess efnis að lánveiting bankanna á íslenskum gengistryggðum lánum hafi verið ólögmæt. Í kjölfar þeirra hafa vaknað, eða verið vaktar upp af fjármálafyrirtækjunum, fjölmargar spurningar um hvernig fara skuli með þau lán sem dómarnir varða. Sumar réttmætar – aðrar ekki. Í fyrsta lagi má nefna þá grundvallarspurningu, hver sé höfuðstóll viðkomandi láns og hvernig eigi að reikna áhrif fyrri afborgana á höfuðstólinn. Í öðru lagi hvort, og þá hvaða, vextir skuli gilda um lánin til framtíðar og hvort að fyrri vaxtagreiðslur teljist að fullu greiddar eða hvort bankarnir geti reiknað nýja vexti afturvirkt. Í þriðja lagi, hvernig skuli fara með eignir sem standa til tryggingar endurgreiðslum hinna ólögmætu lána og hvort að lánafyrirtækjum sé heimilt að svipta lántakendur þeim eignum á grundvelli vanskila. Og loks, spurningin um hvort að ólögmæt lán geti yfir höfuð verið í vanskilum þegar niðurstaða um höfuðstól og vexti lánanna liggur ekki fyrir. Um síðastnefndu spurninguna hefur af einhverjum ástæðum lítið verið fjallað þrátt fyrir augljóst mikilvægi hennar. Með vanskilum eða vanefndum er átt við að réttmæt krafa sé ekki efnd með afhendingu réttmætrarumsaminnar greiðslu á réttum stað og á réttum tíma. Því vaknar eðlilega spurningin, hver er rétt afborgun þegar krafan er ekki réttmæt, þ.e.a.s. hver er réttmæt afborgun af ólögmætu láni? Svarið við þessari spurningu er ekki augljóst. Er fjármálafyrirtækjum stætt á að taka einhliða ákvörðun um og senda út greiðsluseðla með kröfu um tiltekna greiðslu á mánuði meðan fullkominn vafi leikur á um hver sé höfuðstóll lánsins og hvaða vextir giltu og munu gilda um lánið? Hver á að bera hallann af því að lán eru ólögmæt? Er það sérfræðingurinn, sem gegn betri vitund veitti hin ólögmætu lán, eða er það lántakandinn sem þáði boð sérfræðingsins um lánið? Getur verið að réttmæt greiðsla sé sú sem fjármálafyrirtækið ákveður einhliða hverju sinni, án tillits til ólögmætisins? Varla, því samningar eru tvíhliða og því virðist augljóst í tilviki ólögmætra lána að ákvarða verður nýtt endurgreiðsluferli lánsins með samningi milli aðila. Af þessu verður ráðið að skuldara er við þessar aðstæður í raun ómögulegt að efna samninginn samkvæmt aðalefni sínu, þar sem skylda hans er ekki þekkt. Í þessu tilviki á kröfuhafi alla sök og verður því eðlilega að bera hallann af því. Því verður ekki með góðu móti séð að ólögmæt lán geti verið í vanskilum þar sem skuldara er ómögulegt að efna réttmæta kröfu þar sem hún er óþekkt. Eini möguleikinn á vanskilum er ef að samið hefur verið sérstaklega á nýjan leik á réttum forsendum um nýtt greiðsluferli lánsins, eða ef löggjafinn setur reglur um það hvernig og hvað eigi að greiða af slíkum lánum. Er þá átt við að báðir aðilar komi að málinu – en ekki að einhliða yfirlýsing annars dugi. Ef ólögmæt lán geta ekki verið í vanskilum verður ekki séð að kröfuhafi geti beitt samningsbundnum eða lögákveðnum vanefndaúrræðum svo sem eins og vörslusviptingu, krefjast uppboðs, reikna dráttarvexti, o.s.frv.

Fordæmisgildi sumra dóma

Orsakir þeirrar óvissu sem ríkir um framhald umræddra lána er fyrst og fremst að rekja til þess að fjármálafyrirtækin hafa ekki skilið eða viljað skilja niðurstöður eða fordæmisgildi dóma sem falla þeim í óhag. Nýgenginn dómur Evrópudómstólsins um stöðu neytenda þegar um ólögmæt samningsákvæði er ágætt dæmi um þetta því hann var strax túlkaður á þann hátt af fjármálafyrirtækjunum að sá lögmaður sem vakti athygli á honum og fordæmisgildi hans væri að misskilja hlutina, enda dómurinn neytendum í hag. Sambærileg umræða hefur þó af einhverjum ástæðum ekki vaknað þegar dómar falla fjármálafyrirtækjum í hag – þá virðist fordæmið skýrt. Besta dæmið hér á landi um þetta er sú atburðarás sem fór af stað í kjölfar Hæstaréttardóms í febrúar sl., þar sem kveðið var á um að fjármálafyrirtækjum væri ekki heimilt að endurútreikna vexti á ólögmæt lán með afturvirkum hætti og að þegar greiddir vextir á samningstímanum hefðu falið í sér fullnaðargreiðslu vaxta. Dómurinn var skýr og ljóst að stór hluti lántakenda ólögmætra lána var í sömu stöðu og lántakendurnir í þessu tiltekna máli. Í kjölfar dómsins varð skilningsleysi fjármálafyrirtækjanna hins vegar hrópandi, jafnvel svo að þau fóru fram á sérstakt samþykki Samkeppniseftirlitsins um heimild til að stunda samráð í því skyni að "skilja" dóminn. Ekkert var rætt við lögmann þeirra sem höfðu betur í dómsmálinu, en hann hefði án efa getað skýrt málið vel fyrir fyrirtækjunum og niðurstöðu þess. Niðurstaða samráðshópsins var sú að málið væri "óskiljanlegt" og því yrði að höfða hvorki fleiri né færri en ellefu dómsmál til að fá skilning á dómnum. Það sem er sorglegt við þetta leikrit er að stjórnvöld hafa látið hafa sig í að spila með. Það sem þó vekur sérstaka athygli er sú staðreynd að fjármálafyrirtæki hafa að mestu leyti hingað til ekki talið dóma eiga við um aðra en málsaðila hverju sinni – en skyndilega er hægt að höfða ellefu mál til að fá fram skilning á "febrúardómnum!" Látum það nú liggja á milli hluta – en þetta þýðir vitaskuld að það mun taka að lágmarki eitt ár og líklega upp undir tvö ár, þar til niðurstöður fást úr Hæstarétti vegna hluta þessara mála. Hvað á svo að gera með afborganir af ólögmætum lánum meðan hið meinta "óvissutímabil" varir? Og hvað gerist svo ef fjármálafyrirtækin skilja ekki niðurstöður þeirra dóma? Er nema von að spurt sé?

Fastar greiðslur á "óvissutímabili"

Það sem skiptir hins vegar meira máli núna er hvernig eigi að fara með innheimtur á hinum ólögmætu lánum þar til sameiginlegur skilningur fæst á febrúardómnum og þeirri "óvissu," sem fjármálafyrirtækin telja að sé til staðar, verði eytt. Þessa stöðu verður að skýra. Það er augljóst að brotamennirnir geta ekki fengið sjálfdæmi um innheimtu lána á þessu meinta "óvissutímabili" – og dreifi mögulega aukakrónum og bjóði til kaffisamsætis á meðan ímyndarauglýsingar dynja á landanum – enda væri það fráleitt. Því þarf að finna tímabundna lausn á vandamálinu, sem allir geti unað við en tíminn sem hefur farið í að finna lausn á þessum málum er þegar orðinn alltof langur. Úr því að ákveðið var að fara í ellefu dómsmál til að "skilja" febrúardóminn, hljóta menn á sama hátt að semja um það eða ákveða hvað skuli greiða á mánuði af hinum ólögmætu lánum. Það er augljóst að eðlilegasta afborgun af ólögmætu láni á mánuði er 0 krónur, þar sem krafan er óþekkt og því ómögulegt að greiða af henni, a.m.k. þar til samið hefur verið á nýjan leik um það hvað skuli greiða, eða það ákveðið með öðrum hætti. Kröfuhafinn verður eðlilega að bera hallann af þessu, enda ólögmætið að öllu leyti á hans ábyrgð. Það getur vitaskuld ekki gengið að á allt að tveggja ára "óvissutímabili" skuli lánin innheimt líkt og ekkert hafi í skorist – og hafa sum fyrirtækin leyft sér að lýsa yfir því að þau ætli að leggja umframafborganir viðskiptavina sinna inn á sérstaka fjárvörslureikninga á meðan óvissan varir. Ég leyfi mér að fullyrða að enginn, hvorki einstaklingar né fyrirtæki, hafa áhuga á því að greiða inn á fjárvörslureikninga bankanna eða smærri lánafyrirtækja fjármuni sem ástæðulaust er að greiða og vista þá þar ótímabundið vaxtalitla eða vaxtalausa, meðan fjármálafyrirtækin geta nýtt þá til öflunar vaxtatekna, og eiga það á hættu að fá þá ekki til baka. Fólk og fyrirtæki hafa nóg annað við fjármunina að gera, m.a. að láta enda ná saman um hver mánaðamót. Það er því skylda stjórnvalda við þessar undarlegu aðstæður að þau beiti sér fyrir gerð sérstakra samninga um ákveðnar afborganir af hinum ólögmætum lánum á meðan á "óvissutímabilinu" stendur – t.a.m. að greiddar verði 5000 kr. mánaðarlega af hverri milljón, sem upphaflega var tekin að láni þar til meintu "óvissutímabili" lýkur. Annað er óásættanlegt. Ella er í reynd verið að hafa fé af almenningi og fyrirtækjum í hverjum mánuði með ólögmætum hætti – sumir myndu kalla það rán um hábjartan dag. Við það er ekki ekki hægt að una. Það væri því eðlilegt að fjármálafyrirtækin yrðu skylduð til að bjóða slíka samninga – fallist þau ekki á það er réttlætanlegt fyrir Alþingi að setja lög þar að lútandi eða jafnvel að stjórnvöld settu bráðabirgðalög á innheimtuna tímabundið, því tjónið verður um hver mánaðamót. Grípi stjórnvöld ekki til neinna aðgerða er hættan sú að ríkið yrði á síðari stigum bótaskylt vegna vanrækslu við eftirlit með fjármálafyrirtækjunum, þ.e. verði niðurstaðan á endanum sú að fjármálafyrirtæki lifa ekki af óvissuna og einstaklingar og fyrirtæki, sem hafa ofgreitt af lánum sínum, fá ekki fjármuni sína til baka. Slík bótakrafa myndi ekki hvað síst verða byggð á því að stjórnvöld hafi vanrækt eftirlitsskyldu gagnvart fjármálafyrirtækjum. Við þá áhættu er ekki búandi, hvorki fyrir stjórnvöld né einstaklinga og fyrirtæki.

Niðurlag

Að mati FME geta áhrif hins svokallaða "febrúardóms" Hæstaréttar numið allt að 165 milljörðum króna. Sú tala getur þó bæði orðið hærri eða lægri eftir því hvort dómstólar halda áfram að viðurkenna gengistryggða "dulbúna" lánasamninga sem lögmæt erlend lán eða ekki. Talið er að fjöldi gengislánasamninga stappi nærri því að vera 100 til 150 þúsund – en sú tala liggur ekki nákvæmlega fyrir. Dómstólar hafa þegar úrskurðað fjölda þeirra samninga ólögmæta. Öllum má því ljóst vera að stór hluti allra heimila og fyrirtækja í landinu hafa mikla hagsmuni af því hvernig þessi mál verða til lykta leidd. Í þessu ljósi þarf ekki að koma á óvart sá mikli vilji fjármálafyrirtækjanna til að sýna fram á meinta "óvissu" í málinu. Ágreiningurinn snýst nefnilega um það hvort þessir hagsmunir lenda hjá einstaklingum og fyrirtækjum annars vegar, eða kröfuhöfum sem eiga bankana að mestu leyti. Þá er einnig rétt að hafa í huga að niðurstaða þessa máls getur haft áhrif á bónusgreiðslur bankastarfsmanna, því eins og fram hefur komið fá þeir greiddar aukakrónur í samræmi við innheimtuárangur á þeim lánum sem voru færð úr þrotabúum gömlu bankanna yfir til þeirra sem nú starfa á nýjum kennitölum. Við þessar aðstæður geta stjórnvöld ekki látið fjármálafyrirtækjunum einum eftir að stýra atburðarásinni, því þeirra er að hafa eftirlit með fyrirtækjunum og tryggja að niðurstöður dómstóla séu virtar. Skylda stjórnvalda stendur a.m.k. til þess, að tryggja að lántakendur þurfi ekki að greiða of háar afborganir af hinum ólögmætu lánum um hver mánaðamót, meðan "reynt" er að greiða úr hinni heimatilbúnu"óvissu"fjármálafyrirtækjanna – minna getur það nú ekki verið.

Höfundar eru lögmenn, hjá Bonafide lögmönnum.




Skoðun

Sjá meira


×