Viðskipti innlent

Geta ekki breytt afgreiðslutíma Wow Air á Keflavíkurflugvelli

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Wow Air segir Icelandair með einokun á flugi til Ameríku.
Wow Air segir Icelandair með einokun á flugi til Ameríku. Mynd/Friðrik
Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, segist ekki hafa valdheimildir til að fara að þeim fyrirmælum sem Samkeppniseftirlitið beindi til félagsins í ákvörðun í dag og greint var frá á Vísi.

Samkeppniseftirlitið beindi þeim fyrirmælum til Isavia að tryggja ætti aðgang Wow Air að samkeppnislega mikilvægum afgreiðslutíma fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli.

Samkeppniseftirlitsið segir að núverandi fyrirkomulag úthlutunar á afgreiðslutímum leitt til þess að Icelandair hafi haft forgang að næstum öllum mikilvægustu afgreiðslutímum á flugvellinum.

Í tilkynningu frá Isavia segir að ekki hafi gefist tími til þess að rýna í úrskurðinn í heild en samantekt á niðurstöðum benda til þess að félaginu sé ætlað að grípa til ráðstafana sem það telur sig ekki hafa valdheimildir til.

Isavia segist ekki vera úthlutunaraðili afgreiðslutíma áætlunarflugvéla á Keflavíkurflugvelli heldur fer úthlutunin fram í samræmi við reglur evrópska efnahagssvæðisins sem teknar voru upp hér á landi árið 2006.

Úthlutunin er framkvæmd af óháðum alþjóðlegum aðila og telur Isavia óheimilt að grípa inn í með þeim hætti sem Samkeppniseftirlitið krefst. Samræming afgreiðslutíma miði að því að tryggja stundvísi og afgreiðslu og taki bæði til flugvalla sem flogið er til og frá hverju sinni.

Isavia mun væntanlega áfrýja úrskurði Samkeppniseftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×