Innlent

Gestur í Heiðmörk sleginn yfir umgengni - fann dömubindi og glerbrot

Rusl í Heiðmörk. Guðbergur tók þessar myndir þegar hann gekk í gegnum Heimörk í gær.
Rusl í Heiðmörk. Guðbergur tók þessar myndir þegar hann gekk í gegnum Heimörk í gær.
„Fólk er að ganga örna sinna þarna," segir Guðbergur Guðmundsson sem var á ferð í Heiðmörk í gærdag en hann var sleginn yfir slæmri umhirðu á svæðinu, en þar mátti finna rusl út um allt, líkt og meðfylgjandi myndir sýna.

Mikið af fólki lagði leið sína til Heiðmerkur í gærdag í blíðunni en svo virðist sem ekki hafi allir hugað að umhverfi sínu. Guðbergur segir að aðkoman hafi verið hræðileg, raunar svo slæma að hann ákvað að taka sjálfur til ásamt konu sinni.

„Ég meina, hvað átti maður eiginlega að gera," segir Guðbergur sem er undrandi á hegðun gesta Heiðmerkur. „Maður sá glerbrot þarna og meira að það segja dömubindi og fleira. Það er bara eins og fólki sé alveg sama," segir Guðbergur um umgengnina.

„Maður veltir eiginlega bara fyrir sér hvað sé að þessu fólki sem hagar sér svona. Maður sá þetta ekki áður fyrr, þegar fólk sá sóma sinn í að taka til eftir sig," segir Guðbergur sem telur skýringuna þessa:

„Þjóðfélagið er bara að verða sjúkt. Það stendur bara eitt stór „Ég" á bakinu á þessu fólki."

Guðbergur tekur þó fram að ekki séu allir slæmir hvað þetta varðar. Hann bendir á að líklega hafi vel yfir þúsund manns heimsótt svæðið um helgina.

Það er Skógræktarfélag Reykjavíkur sem sér um umhirðu á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×