Innlent

Gera sérstaka úttekt á meðferð kynferðisbrotamála

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis ætlar að gera sérstaka úttekt á meðferð kynferðisafbrotamála. Varaformaður nefndarinnar segir kerfið senda þau skilaboð í dag að ekki þýði að kæra voðaverknaði enda leiða aðeins þrjú af hverjum eitt hundrað málum sem kærð eru til sakfellingar.

Aðeins lítill hluti af þeim kynferðisbrotamálum sem kærð eru til lögreglu leiða til sakfellingar. Fjallað var um málið í Fréttablaðinu í gær og vöktu tölur sem þar voru birtar athygli. Skúli Helgason þingmaður Samfylkingarinnar óskaði í framhaldinu eftir því að allherjar- og menntamálanefnd Alþingis geri sérstaka úttekt á meðferð kynferðisbrotamála.

„Það eru þessar nýju upplýsingar um að það séu ekki nema 3 af hverjum 100 málum sem eru kærð til lögreglu sem að leiða til sakfellingar og yfir 85% af þessum málum sem að fara aldrei áfram til Ríkissaksóknara sem að segir okkur það að við erum með kerfi sem að sendir þau skilaboð að það þýði í raun og veru ekkert að kæra þessa voðaverknaði og það kallar á sérstök viðbrögð þingsins sem að ég vill beita mér fyrir," segir Skúli.

Skúli segir nefndina koma til með að ræða við fjölmarga aðila líkt og fulltrúa Stígamóta, Ríkissaksóknara, yfirmann kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögmann Neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Mikilvægt sé að skoða málið kerfisbundið.

„Hvað er að valda þessari tregðu í kerfinu. Eru eðlilegar skýringar á einhverjum á þessum þáttum. Hvar getur fjárveitingarvaldið gripið inn og svo framvegis," segir Skúli.

Hann segir mikilvægt að skoða afhverju svo fá mál lendi fyrir dómstólum, hvernig standi á því að svo örfá mál leiði til sakfellingar og afhverju málshraðinn er eins langur og raun ber vitni.

„Þetta er algjörlega óásættanlegt og við getum ekki boðið fórnarlömbum kynferðisafbrota upp á það að það fái hreinlega enga úrlausn sinna mála í kerfinu hjá okkur. Nógu slæmt er að þola þessa verknaði og við verðum að standa betur að því að tryggja að réttlætinu sé fullnægt," segir Skúli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×