Lífið

Gengið úr myrkri í ljós

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Guðmundur Hermann Gunnarsson, kallaður Mummi, vill stuðla að því að fólk í bráðum vanda fái þá aðstoð sem hann fékk ekki.
Guðmundur Hermann Gunnarsson, kallaður Mummi, vill stuðla að því að fólk í bráðum vanda fái þá aðstoð sem hann fékk ekki. Visir/Stefán
Aðfaranótt 7. maí næstkomandi verður gengin 5 kílómetra leið úr næturmyrkri inn í dagrenningu. Gangan hefst kl. 04.00 við húsnæði KFUM og KFUK við Holtaveg í Laugardal. Það eru ný samtök, Pieta Ísland, sem standa fyrir göngunni. Samtökin hyggjast stofna hjálparmiðstöð fyrir sjálfsvíg og sjálfsskaða. Gangan er að írskri fyrirmynd en samtökin Pieta House voru stofnuð á Írlandi fyrir áratug, tilgangur þeirra er að gefa von, hvetja til vitundarvakningar um sjálfsvíg og sjálfsskaða, standa fyrir fræðslu og rannsóknum og útvega sálfræðiaðstoð.

Jóhanna María Eyjólfsdóttir er formaður stjórnar Pieta Ísland sem stendur í fyrsta skipti fyrir göngu á Íslandi. „Þetta er gert með táknrænum hætti, við göngum á móti sólarupprásinni. Stefnan er að opna hjálparmiðstöð, við tökum eitt skref í einu,“ segir hún og segist finna fyrir miklum velvilja.

Vísað út af geðdeild

Guðmundur Hermann Gunnarsson gerði tilraun til sjálfsvígs fyrir ári. Honum var vísað heim af geðdeild eftir sjálfsvígstilraun og segir mikla þörf á hjálparmiðstöð. „Það hefur alltaf farið lítið fyrir mér,“ segir Guðmundur, sem er kallaður Mummi, um það hvernig vandi hans ágerðist. „Ég átti eldri systkini sem kröfðust mikillar athygli frá móður minni. Við erum öll með athyglisbrest. Bróðir minn er ofvirkur og systir mín lesblind. Móðir okkar er einstæð, það var ekki mikill tími til skiptanna og ég var afskiptur og mikið út af fyrir mig,“ segir Mummi sem segir þannig fáa hafa tekið eftir vanlíðan sinni.

Jóhanna María er einn af stofnendum Pieta Ísland og finnur fyrir velvilja, stefnt er á hjálparmiðstöð, fræðslu og ýmsa þjónustu.Vísir/Ernir
„Ég hef alltaf verið góður í því að setja upp grímu, hún festist við mig,“ útskýrir hann frekar.

„Ég sá eiginlega enga leið út nema að sofna og vakna ekki aftur.“

Hann gerði tilraun til þess en sendi neyðarkall áður til vina sinna á Snapchat. „Ég vaknaði á sjúkrahúsi og daginn eftir að ég vaknaði á spítalanum þá fórum við fjölskyldan saman upp á geðdeild og óskuðum eftir hjálp. Ég fór í viðtal en í stuttu máli þá var mér vísað út.“

Hann var ósáttur við móttökurnar á geðdeild en ákvað samt að vinna í sínum málum. „Ég varð virkilega reiður. Mamma sendi bréf til Landspítala um meðferð mína þar. Við fórum svo á fund með yfirlækni sviðsins og ræddum opinskátt um hvað hafði gerst og mér fannst það gott. Við vorum sammála um að það væri verr tekið á móti strákum en stelpum þegar kemur að sjálfsvígshugsunum,“ segir Mummi sem segist hafa rætt við fleiri stráka um þetta efni. „Þetta er frekar reynsla stráka en stelpna, að þeim sé vísað í burtu þegar þeir leita eftir aðstoð.“

Fékk tækifæri

Mummi fór í meðferð á Vog sem styrkti hann enn frekar og fyrir tilviljun heyrðu hann og mamma hans minnst á samtökin Hugarafl í útvarpsviðtali. „Ég hafði aldrei heyrt um samtökin áður, samt hef ég hitt tíu sálfræðinga og þrjá geðlækna á minni ævi. Þessi samtök hafa gagnast mér mikið í bata. Í Hugarafli mætist fólk á jafningjagrundvelli, þar fékk ég tækifæri og þar er fólk sem hefur verið í svipuðum aðstæðum.“

Með því að taka þátt í göngunni vill hann stuðla að því að opnuð verði miðstöð þangað sem fólk eins og hann getur leitað. „Ég vil að fólk fái þá hjálp sem ég fékk ekki. Það bráðvantar í samfélagið, það er ekki haldið utan um fólk í þessum vanda í heilbrigðiskerfinu,“ segir hann.

Aðalbjörg Stefanía missti föður sinn þegar hann var nýkominn út úr skápnum, hún vill stuðla að fordómaleysi og samhygð.Vísir/Ernir
Sjálfsvíg eftir opinberun

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir tekur einnig þátt í göngunni en hún missti föður sinn fyrir tíu árum. Faðir hennar hafði áður komið út úr skápnum eftir þrjátíu ára hjónaband.

„Ég tek þátt í göngunni til að styðja þetta forvarnarstarf og til að vekja athygli á því að þetta er brýnt samfélagsmál. Gangan minnir okkur á það að ljósið er innra með okkur öllum, við erum öll ljósberar en eigum það til að vera oft föst í okkur sjálfum. Þetta er bara spurning um að færa athyglina út á við, horfa í augun á fólki. Sýna því umhyggju,“ segir Aðalbjörg.

„Pabbi minn fyrirfór sér árið 2005, rétt fyrir jól. Hann var fimmtíu og átta ára gamall. Hann opinberaði samkynhneigð sína eftir rúmlega þrjátíu ára hjónaband hans og mömmu og sökk ofan í þunglyndi og vanlíðan rúmu hálfu ári síðar,“ segir Aðalbjörg um aðdraganda sjálfsvígsins. „Þetta var gríðarlega stórt skref fyrir hann að taka. Fólk er svo fljótt að dæma. Að gefa sér eitthvað fyrirfram í stað þess að reyna að setja sig í spor annarra. Hann leitaði svolítið eftir samþykki hjá fólki sem hann vissi vel að myndi ekki standa með honum og hann dæmdi sjálfan sig líka mjög hart,“ segir Aðalbjörg og tekur það fram að hún sé engum reið vegna fráfalls föður síns.

„Við þurfum öll á því að halda að finna að við erum hluti af stærri heild. Ég held að allir á Íslandi þekki einhvern eða til einhvers sem hefur fyrirfarið sér. Vanlíðanin hjá viðkomandi er óskiljanleg, við getum ekki skilið hana en við skulum láta það vera að dæma, og í stað þess hlusta á fólk og gefa af okkur,“ segir Aðalbjörg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×