Viðskipti innlent

Gengi krónunnar ekki verið veikara í tæp tvö ár

Gengi íslensku krónunnar tók dýfu rétt fyrir áramótin þvert á spár sérfræðinga. Hefur gengið ekki verið veikara í tæp tvö ár.

Gengisvísitalan mælist nú 231 stig og hefur ekki verið hærri síðan í febrúar árið 2010. Miðað við stöðu vísitölunnar í sumar hefur gengi krónunnar fallið um nærri 12%.

Þá eða í ágúst tók gengi krónunnar að veikjast töluvert og töldu sérfræðingar almennt að um skammtímaáhrif væri að ræða enda ferðamannastraumurinn til landsins enn í hámarki. Nefndir voru til sögunnar hlutir eins og miklar greiðslur sveitarfélaga og fyrirtækja af erlendum lánum. Þessi niðursveifla myndi jafna sig út þegar kæmi fram á veturinn.

Staðan er samt sú að dollarinn hefur hækkað í verði um tæp 8% síðan um miðjan ágúst, evran hefur hækkað um rúm 14% sem og danska krónan. Þá hefur breska pundið hækkað um tæp 11%.

Eina alþjóðlega myntin sem hefur lækkað gangvart krónunni á þessu tímabili er japanska jenið. Þar er hinsvegar um að ræða meðvitaðar aðgerðir japanskra stjórnvalda og seðlabanka landsins í þá áttina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×