Innlent

Gefur jöklunum rödd

BBI skrifar
Svínafellsjökull. Tónlist Bergljótar Arnalds er byggð á hljóðum jökla.
Svínafellsjökull. Tónlist Bergljótar Arnalds er byggð á hljóðum jökla. Mynd/Vox Naturae
Vox Naturae var gert að umræðuefni á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna Ríó + 20 sem haldin var í þessari viku. Vox Naturae er íslenskt verkefni sem felst í því að listamenn munu lýsa upp Svínafellsjökul um leið og frumsamin tónlist Bergljótar Arnalds mun ljá honum rödd.

Dr. Ania Grobicki benti á að Ísland yrði vettvangur fyrir einstaka vitundarvakningu um vægi íss og jökla fyrir mannkynið allt á fundi með ráðherrum og forsvarsmönnum alþjóðastofnana á ráðstefnunni. Grobicki er aðalritari Global Water Partnership sem eru stærstu alþjóðasamtök um sjálfbæra notkun á vatnsauðlindum jarðar

Efni fundarins var hið mikilvæga framlag fjalla og fjallgarða fyrir hið græna hagkerfi, en um helmingur mannkyns er háður vatni frá fjallasvæðum og jöklum. Fram kom einnig að ís hefur að geyma um 30% alls drykkjarhæfs vatns. Bráðnun jökla hefur því umtalsverðar afleiðingar fyrir mannkyn en þrátt fyrir það er lítið vitað um jökla og hvernig eigi að bregðast við bráðunun þeirra.

Með verkinu Vox Naturae verður vakin athygli á mikilvægi jökla og hnignun þeirra. Umhverfissérfræðingar á heimsmælikvarða og veigamiklar alþjóðlegar stofnanir hafa tekið höndum saman við þetta íslenska frumkvæði. Viðburðurinn fer fram í september árið 2013 í Vatnajökulsþjóðgarði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×