Skoðun

Gefum heilanum gaum! Alþjóðleg heilavika

María K. Jónsdóttir skrifar
Vikuna 11.–17. mars næstkomandi verður heilanum gefinn sérstakur gaumur, bæði í Fréttablaðinu sem og víða um heim. Fræðsluvika þessi, sem á ensku nefnist Brain Awareness Week, hefur verið skipulögð af bandarískum góðgerðarsamtökum, Dana Foundation, síðan árið 1996. Frá 1996 hafa þátttakendur í 82 löndum tekið þátt í þessari kynningarviku. Meðal annars hafa háskólar og sjúklingasamtök staðið fyrir fræðslu á ýmsum vettvangi, svo sem í grunnskólum, fjölmiðlum og á götum úti. Allt með það að markmiði að efla almenna þekkingu á heilanum.

Að þessu sinni hyggjast taugasálfræðingar á Landspítalanum taka þátt í þessu verkefni í fyrsta sinn fyrir hönd Íslands. Markmiðið er að vekja athygli á þessu stórbrotna líffæri okkar, heilanum. Við munum birta nokkrar greinar sem tengjast heilanum og heilahreysti. Í tilefni af heilavikunni verður einnig opnuð bloggsíða á íslensku um heilann (heilahreysti.about-brains.com) þar sem fjallað verður um heilann á fjölbreyttan hátt.

Að mati okkar sem vinnum með sjúklingum með heilaskaða og heilasjúkdóma og stundum rannsóknir á þessu sviði er þörf á að efla almenna þekkingu á heilanum og starfsemi hans. Sem betur fer hefur orðið mikil vitundarvakning varðandi mikilvægi þess að hugsa vel um líkamann. En það er eins og það gleymist stundum að heilinn sé hluti líkamans og að hans þurfi einnig að gæta. Margir eru sér þess ekki meðvitaðir að hægt sé að hafa áhrif á heilbrigði heilans og telja að heilinn sé óbreytanlegur eftir ákveðinn aldur. Jafnvel heyrist sagt að við notum bara hluta hans. Aðrar ranghugmyndir um heilann lifa enn góðu lífi. Til dæmis heyrist það viðhorf að ung börn þoli heilaáverka betur en þeir sem eldri eru. Ranghugmyndir sem þessar geta beinlínis verið skaðlegar heilsu fólks og mikilvægt er að leiðrétta þær.

Vonandi munu fleiri hérlendir þátttakendur bætast í hópinn á næsta ári til að efla almenna þekkingu á heilanum. Til frekari upplýsingar má benda á heimasíðu heilavikunnar: http://www.dana.org/brainweek/




Skoðun

Sjá meira


×