Innlent

Gagnrýnin byggð á misskilningi

Svavar Hávarðsson skrifar
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir að gagnrýni á fyrirtækið byggi á misskilningi að hluta.
Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir að gagnrýni á fyrirtækið byggi á misskilningi að hluta. Fréttablaðið/Stefán
Forstjóri Íslandspóst vísar gagnrýni á rekstur fyrirtækisins á bug og heldur því staðfastlega fram að engir árekstrar séu á milli einkaleyfis- og samkeppnishluta rekstursins. Að miklum hluta sé gagnrýni byggð á misskilningi. Um tugur mála er varða Íslandspóst eru til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu eins og Fréttablaðið greindi frá í gær.

Allt í sama farvegi

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir í viðtali við Fréttablaðið að gagnrýni Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, renni í sama farvegi og öll gagnrýni hingað til.

Þar sagði Ólafur í hnotskurn að Íslandspóstur notaði tekjur af einkaréttarhluta fyrirtækisins til að niðurgreiða margvíslega samkeppni við einkafyrirtæki á mörkuðum. Það sem hér er vísað til væri brot á tveimur aðskildum greinum samkeppnislaga – grein sem fjallar um bann við misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu og annarri um fjárhagslegan aðskilnað.

Ingimundur segir um mjög flókna hluti að ræða en spurningin sé ekki síst sú hvernig niðurgreiðslur séu skilgreindar. „Við horfum ekki á málið út frá því heldur hvernig okkur hefur verið gert skylt að skipta niður kostnaði við rekstur fyrirtækisins. Þetta er kostnaðargreining en ekki spurning um niðurgreiðslur í okkar huga. Af því að þetta er flókið þá er það sett í hendur eftirlitsstofnana að hafa eftirlit með okkar rekstri. Á það bæði við um Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppniseftirlitið, og í báðum tilvikum hefur þetta verið lengi til skoðunar vegna þess misskilnings úti á markaðnum hvernig þessi kostnaðargreining er,“ segir Ingimundur.

Að taka sér stöðu

Um sáttameðferðina hjá Samkeppniseftirlitinu, sem hófst árið 2013 vegna mála sem þar eru til skoðunar, segir Ingimundur að lengi hafi staðið yfir viðræður við stofnunina um þau kærumál sem hafa komið upp. „Við höfum verið sammála um það að í þessu rekstarumhverfi sem pósturinn er í að þá eru augljóslega það flókin mál, sérstaklega uppgjörsmál, í gangi að fólk sem er ekki tengt rekstrinum á auðvelt með að misskilja það sem lagt er til grundvallar. Í viðræðum um þessi kærumál vorið 2013 kom upp það sjónarmið að afgreiða þau á grundvelli reglna Samkeppniseftirlitsins, sem bíður uppá sáttaniðurstöðu.

„Frumkvæðið af þessari málsmeðferð var Samkeppniseftirlitsins, en ekki Íslandspósts. Síðan hafa staðið yfir samskipti um hvernig hægt væri að gera rekstrarumhverfi Íslandspósts skýrara, þannig að svona kærumál og tortryggni grasseruðu ekki í umhverfinu, sem er mjög bagalegt fyrir okkur sem fyrirtæki og viðskiptavini okkar. En það er engin niðurstaða fengin og ekki augljós niðurstaða sem getur skýrt þetta allt saman svo allir geti við unað. Enda þegar um einkarétt er um að ræða, eins og pósturinn er með og stendur til að afleggja, þá er það hluti af aðferðafræðinni við að koma sér inn á markaðinn að búa til ágreiningsmál og taka sér stöðu. Þó við komumst að niðurstöðu er engin trygging fyrir því að ekki verði áframhald á kærum og gagnrýni,“ segir Ingimundur en hafnar því að nefna hvaða fyrirtækis eða fyrirtækja hann vísar til. Alls telur hann að sex mál séu uppi á borðum, og telur þá ekki með mögulegar ábendingar og kvartanir sem ekki hafa komið til sérstakrar umfjöllunar. Um þessi mál hafi Íslandspóstur fjallað, hvort misbrestur hafi orðið, og ekkert komið upp sem bendir til þess, að sögn Ingimundar.

Linnulítil gagnrýni

Spurður nánar um gagnrýnina, sem hefur verið linnulítil árum saman, og hversu óvægin hún hefur verið segir Ingimundur. „Ég, og við hér, lesum sama tóninn í gegnum öll þessi skrif og teljum okkur sjá þræðina í því. Þetta hefur átt sér margra ára aðdraganda og búið að taka þau í gegnum Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins, og núna Félag atvinnurekenda. Eins í gegnum innanríkisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og ríkisendurskoðanda. Við höfum orðið varir við alla þessa slóð sem aðallega er tengd einum aðila,“ segir Ingimundur.

„Ég hef hins vegar ekki fengið neinar meldingar frá eftirlitsaðilum okkar um að við séum að gera eitthvað rangt; hvorki frá Póst- og fjarskiptastofnun varðandi pósthlutann eða Samkeppniseftirlitinu varðandi misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Það ferli sem málið er hjá samkeppnisyfirvöldum þýðir að verið er að leiða málið til lausnar án þess að í því felist einhver brot. Sáttin er tilraun til að skýra málin. En ef samkeppnisaðilar okkar vilja gera þetta tortryggilegt og flókið þá geta þeir gert það óháð því hvort sátt verður gerð. Þó að við séum allir af vilja gerðir til að reyna að skýra þetta allt, þess vegna með endurskipulagningu á fyrirtækinu hvað þá meira, þá er það engin trygging fyrir því að samkeppnisaðilar okkar reyni ekki að gera það fyrirkomulag tortryggilegt líka.“

Ástæða samkeppnisrekstrar

„Mín sýn á þetta mál er einfaldlega þannig, og ástæðan fyrir því að við erum í samkeppnisrekstri, og ég tala nú ekki um rekstri fyrirtækja sem eru utan þeirrar alþjónustuskyldu sem við höfum, er að hann skilar okkur hundruðum milljóna í tekjur og í beinan hagnað uppá á þriðja hundrað milljónir, eins og okkar ársskýrsla mun sýna. Það kemur beinlínis þeirri starfsemi til góða sem okkur er skylt að halda úti, en enginn vill sinna þar sem tekjurnar standa ekki undir því. Það er hægt að segja við fólk að við séum í kafi í samkeppni þar en það er bara enginn sem við erum að keppa við. Þvert á móti vilja samkeppnisaðilarnir skipta við okkur, af því að það þarf að borga með þessu,“ segir Ingimundur.

Hér er um að ræða eina aðal gagnrýnina á starfsemi Íslandspóst, nefnilega umsvif á samkeppnismarkaði, þar sem ríkið keppir við einkaaðila á mörgum sviðum, eða „allt frá póstsendingum og prentsmiðjurekstri til sendibílaþjónustu og sælgætissölu,“ eins og Ólafur Stephensen orðar það í fyrrnefndri grein sinni í Fréttablaðinu.

Fullyrt er úr öllum áttum að ríkið eigi ekki að skipta sér af viðskiptum með þennan varning og þeim sé best fyrirkomið hjá einkaframtakinu. „Það er stóra spurningin, af hverju ríkið á að skipta sér. Það er bara allt önnur spurning og hvort ríkið eigi að eiga fyrirtæki eins og Íslandspóst,“ segir Ingimundur. Spurður hvort það sé óæskilegt, að ríkið eigi Íslandspóst og beri að selja fyrirtækið, segist Ingimundur hafa á því skoðun en hann ætli að halda henni fyrir sjálfan sig.

Enn er spurt um kaup Íslandspósts á fyrirtækjum sem í fljótu bragði eiga ekkert skylt við grunnrekstur fyrirtækisins, og ríkið því að fara með opin augun í harða samkeppni við minni fyrirtæki sem fyrir eru. Er þetta nauðsynlegt?

„Þetta er ekki nauðsynlegt, en þetta er liður í því að reyna að auka verðmæti Íslandspósts og við erum að hafa af þessu umtalsverðar tekjur.“

Á ríkið að eiga flutningafyrirtæki?

„En það er eitt að eiga fyrirtæki af hálfu ríkisins, og rökræða það hvort ríkið eigi að eiga flutningafyrirtæki eins og póstinn, en síðan annað að ríkið er að halda uppi starfsemi sem er lögbundin í gegnum slíkt fyrirtæki. Það er mergurinn málsins að meirihluti af okkar rekstri er starfsemi sem ríkinu ber að sinna samkvæmt lögum og hefur falið Íslandspósti að annast. Stór hluti af því er eitthvað sem enginn vill sinna þó á samkeppnismarkaði sé. Stóra spurningin er hver, og hvernig, á að borga þann kostnað. Málið er að einkarétturinn stendur ekki undir þeirri byrði og þess vegna verður að finna leiðir til þess. Hinn hliðin á peningunum er að við erum hlutafélag, eins og hvert annað, og markmiðið með rekstri að skila ásættanlegum arði til eigandans og auka verðmæti fyrirtækisins vilji eigandinn einhvern tímann selja. Hluti af því að auka verðmætið er að geta vaxið á þeim sviðum þar sem vaxtar- og hagnaðarvon er - sem er í samkeppnisrekstri utan alþjónustuskyldunar. Þess vegna erum við í samkeppnisrekstri. Svo vill bara svo vel til að hagnaðurinn af því er svo góður að það styður við það grunnkerfi sem póstinum ber að sinna fyrir hönd ríkisins,“ segir Ingimundur.

Snýr í hina áttina

Hér spyr blaðamaður að gagnrýnin snúi í hina áttina; það sé stórtap af samkeppnishluta rekstrarins og fé tekið úr einkaréttarhlutanum til þess að brúa það bil. Slök afkoma félagsins á síðustu árum verði skýrð þar.

Sú gagnrýni á sér einfaldlega upphaf og endi í því að margar aðferðir eru til við að deila kostnaði í rekstri, segir Ingimundur og á honum að skilja að þar eigi deilur um Íslandspóst sér rætur. Spurður hvort flækjustigið í útreikningum sé ekki einfaldlega ástæða gagnrýni og Íslandspóstur notfæri sér það, þá segir Ingimundur það rangt. Sérfræðingar eftirlitsstofnana þekki vel til mála Íslandspósti er ekki kunnugt um að þeir telji fyrirtækið nota einkaréttinn til að greiða samkeppnisvörur niður með ólögmætum hætti, og staðhæfir jafnframt að ef ekki kæmi til samkeppnisrekstur Íslandspósts þá væri fyrirtækið rekið með gríðarlegu tapi. Fullyrðingar um að einkarétturinn sé notaður til að niðurgreiða samkeppnisreksturinn séu alrangar.

Einkaréttur afnuminn - hvað þá?

Ingimundur segir stóru spurninguna vera hvernig ríkið ætlar að tryggja grunnþjónustuna ef einkarétturinn verður afnuminn, eins og hefur staðið til um árabil. Til skýringar má skjóta því inn að mikið af uppbyggingu Íslandspósts í gegnum árin hafa verið til að undirbúa afnám einkaréttar; fyrst 2011 og síðan 2013.

„Það er ekki vilji eða hagsmunir Íslandspósts að einkarétturinn sé við líði. Það er stjórnvalda að svara því hvenær hann verður afnuminn, en við höfum ályktað um að það verði gert frá árinu 2004. Það er grundvallar spurningin sem ætti að vera í umræðunni; hver á að borga þessa þjónustu þegar einkarétturinn verður afnuminn. Ríkið ber skylduna samkvæmt Evróputilskipun, en ekki Íslandspóstur. Við gætum þess vegna sótt um rekstrarleyfi á samkeppnismarkaði og sleppt þessu eins og hvert annað hlutafélag,“ segir Ingimundur og játar því að grunn ástæðan fyrir því að Íslandspóstur er til, og að margir vilja að ríkið eigi fyrirtækið, sé að veita umrædda grunnþjónustu. Spurningin sé því pólitísk hvernig að þessu verður staðið í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×