Innlent

Dæmdur fyrir á­rásina í Úlfarsárdal

Jón Þór Stefánsson skrifar
Shokri Keryo gekk inn í dómsal í fylgd lögreglumanns við fyrirtöku málsins.
Shokri Keryo gekk inn í dómsal í fylgd lögreglumanns við fyrirtöku málsins. Vísir/Arnar

Shokri Keryo hefur hlotið þriggja og hálfs árs fangelsidóm fyrir skotárás sem átti sér stað í Úlfarsárdal í nóvember í fyrra, þegar hann skaut fjórum skotum að fjórum mönnum.

Í samtali við fréttastofu segir Dagmar Ösp Vésteinsdóttir, sem sótti málið fyrir héraðssaksóknara að Shokri hafi verið sakfelldur fyrir hættubrot en sýknaður af tilraun til manndráps.

RÚV greindi fyrst frá dómnum sem var kveðinn upp í morgun.

Einn maður varð fyrir skoti í árásinni, það er Gabríel Douane sem komist hefur endurtekið í kast við lögin undanfarin ár. Hann hlaut sár á hægri sköflung.

Shokri, sem er 21 árs gamall Svíi, neitaði sök fyrir dómi. Hann þvertók fyrir að hafa beitt skotvopni í árásinni. Þá sagðist Gabríel ekkert muna eftir árásinni.

Við árásina brotnaði einnig afturrúða og myndaðist dæld í afturhlera bíls. Þá brotnaði rúða í íbúð fjölskyldu og hafnaði skot í vegg íbúðar þar sem fjögurra manna fjölskylda svaf, þar á meðal fjögurra og átta ára börn.

Annari ákæru var bætt við málið í janúar, en sú varðaði umferðarlagabrot, en Shokri játaði sök í þeim.

Gabríel fær 1,5 milljón krónur dæmdar í miskabætur. Tveir aðrir menn sem voru á vettvangi fá hvor um sig 800 þúsund krónur. Þá fær fólk sem var í húsinu þegar árásin átti sér stað einnig bætur. Annars vegar fær kona 600 þúsund krónur og hins vegar fær maður rúma milljón króna, en í þeim kostnaði er einnig að finna bætur vegna skemmda sem urðu á húsinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×