Handbolti

Norska stór­liðið örugg­lega í undan­úr­slit

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigvaldi Björn og félagar í Kolstad vonast til að verja titilinn í úrslitakeppninni. Þeir eru hársbreidd frá því að tryggja sér heimavallarrétt.
Sigvaldi Björn og félagar í Kolstad vonast til að verja titilinn í úrslitakeppninni. Þeir eru hársbreidd frá því að tryggja sér heimavallarrétt. Kolstad

Landsliðsmaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson og samherjar hans í norska liðinu Kolstad eru komnir í undanúrslit norsku deildarinnar eftir að hafa slegið út Halden í 8-liða úrslitum í dag.

Kolstad varð deildarmeistari norsku deildarinnar nokkuð örugglega en sex stigum munaði á Kolstad og Elverum sem endaði í 2. sæti. Nokkuð gustaði um lið Kolstad síðasta sumar og þurftu leikmenn meðal annars að taka á sig umtalsverða launalækkun. Þá var gengi liðsins í upphafi tímabils ekki gott en liðinu hefur vaxið ásmegin eftir því sem á hefur liðið.

Í dag mætti liðið Halden í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum en Kolstad vann 33-24 sigur í fyrsta leiknum. Leikurinn í dag var jafnari en Kolstad þó alltaf skrefinu á undan. 

Sigvaldi og félagar náðu fimm marka forskoti í fyrri hálfleik og missti forskotið aldrei eftir það. Heimaliðið minnkaði muninn í 21-20 um miðjan seinni hálfleik en þá setti Kolstad í næsta gír á nýjan leik og vann að lokum 26-23 sigur.

Sigvaldi Björn skoraði þrjú mörk úr þremur skotum í leiknum í dag Kolstad er nú komið í undanúrslit og verða að teljast líklegir til að verja titilinn sem þeir unnu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×