Enski boltinn

Afar undar­leg sjálfsmörk og markmannsmistök

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bart Verbruggen átti ólukkaða spyrnu upp völlinn sem fór í Josh Brownhill og þaðan í netið.
Bart Verbruggen átti ólukkaða spyrnu upp völlinn sem fór í Josh Brownhill og þaðan í netið. Lewis Storey/Getty Images

Þremur leikjum lauk rétt í þessu í ensku úrvalsdeildinni. Mest var spennan í leik Wolves og Nottingham Forest en aðrir leikir lituðust af furðulegum sjálfsmörkum og markmannsmistökum. 

Wolves og Nottingham Forest gerðu 2-2 jafntefli sín á milli. 

Wolves tók forystuna á 40. mínútu með glæsimarki frá Matheus Cunha. Hann fékk boltann á eigin vallarhelmingi og rak allan völlinn áður en hann þrumaði honum í þaknetið. Stoðsendingin barst frá José Sá, markverði Wolves.

Morgan Gibbs-White jafnaði svo metin með kollspyrnu eftir hornspyrnu Giovanni Reyna rétt fyrir hálfleik.

Snemma í seinni hálfleik náði Nottingham svo forystu þegar Danilo skoraði eftir stungusendingu frá Gibbs-White.

Aðeins fjórum mínútum síðar, á 62. mínútu, jafnaði Wolves á nýjan leik. Aftur var Matheus Cunha á ferðinni, fyrstur í frákast eftir skot sem Matt Selz, markvörður Forest missti frá sér.

Fleiri urðu mörkin ekki og liðin skildu jöfn. 

Mikill sjálfsmarkadagur

Brentford vann 2-0 sigur á Sheffield United. 

Tvö mörk voru skoruð með stuttu millibilli í seinni hálfleik. Oliver Arblaster potaði boltanum óvart í eigið net á 64. mínútu eftir fyrirgjöf Mikkel Damsgaard. Fjórum mínútum síðar skoraði Damsgaard svo sjálfur með laglegri klippu en markið var dæmt af eftir myndbandsskoðun.

Það kom ekki að sök því Frank Onyeka skoraði annað mark fyrir Brentford og gulltryggði sigurinn á þriðju mínútu uppbótartíma.

Markmannsmistök á markmannsmistök ofan

Burnley og Brighton skildu jöfn 1-1 í steindauðum leik sem litaðist af furðulegum markmannsmistökum á báðum endum. 

Burnley urðu fyrstir til að skora á 74. mínútu, afar ólukkuleg spyrna markmannsins Bart Verbruggen skaust í Josh Brownhill og af honum í netið.

Gæðin voru ekki meiri hinum megin á vellinum en Arijanet Muric fékk sendingu frá Sander Berge og misreiknaði sig í móttökunni, missti boltann undir fótinn og þaðan rúllaði hann í netið. 

Stöðuna í ensku úrvalsdeildinni má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×