Enski boltinn

Tíma­bilið að ná há­marki en lykil­maður Man. City biður um hvíld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Álagið hefur verið mikið á Rodri enda líklegast mikilvægasti leikmaður Manchester City liðsins.
Álagið hefur verið mikið á Rodri enda líklegast mikilvægasti leikmaður Manchester City liðsins. EPA-EFE/PETER POWELL

Spænski miðjumaðurinn Rodri hefur ekki tapað leik með félagsliði eða landsliði í meira en ár og hann er að mörgum talinn vera besti afturliggjandi miðjumaður heims. Það hefur verið mikið álag á kappanum og það hefur tekið sinn toll.

Rodri viðurkenndi í nýlegu viðtali að hann sé orðinn mjög þreyttur eftir leikjatörnina að undanförnu en líkt og í fyrra þá er Manchester City liðið í dauðafæri að vinna þrennuna.

Rodri ræddi stöðuna eftir 3-3 jafntefli á móti Real Madrid í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Við getum allir gert betur, ég líka, en við þurfum á hvíld að halda ef ég er alveg hreinskilinn,“ sagði Rodri eftir leikinn og endurtók sig.

„Ég að minnsta kosti. Ég þarf hvíld,“ sagði Rodri. Hann hefur nú spilað 66 leiki í röð fyrir félagslið og landslið án þess að tapa.

Mikilvægi Rodri fyrir Manchester City sést líka svart á hvítu í gengi liðsins án hans.

Öll þrjú töp City manna í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu komu í leikjum þegar Rodri tók út leikbann. Þetta voru leikir á móti Wolves, Arsenal og Aston Villa.

Þegar Manchester City datt út úr enska deildabikarnum á móti Newcastle þá var Rodri einnig í leikbanni.

„Sjáum til hvernig þetta verður. Við erum samt að reyna að skipuleggja einhverja hvíld,“ sagði Rodri.

Sú hvíld gæti mögulega komið fyrir hann á móti Luton Town um helgina. Hann hvíld síðasta leik félaganna í febrúar þegar Manchester City sló Luton 6-2 út úr enska bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×