Enski boltinn

Klopp skaut á United og býst ekki við greiða

Sindri Sverrisson skrifar
Jürgen KLopp stappar stálinu í Curtis Jones eftir jafnteflið á Old Trafford, sem gæti reynst Liverpool dýrkeypt.
Jürgen KLopp stappar stálinu í Curtis Jones eftir jafnteflið á Old Trafford, sem gæti reynst Liverpool dýrkeypt. Getty/Andrew Powell

Jürgen Klopp og hans menn í Liverpool gætu þurft á aðstoð frá Manchester United að halda til að landa Englandsmeistaratitlinum í fótbolta, en Klopp er ekki bjartsýnn á að fá þá hjálp.

Liverpool óð í færum gegn United á Old Trafford í gær en varð að sætta sig við 2-2 jafntefli eftir að Mohamed Salah jafnaði metin úr vítaspyrnu þegar skammt var til leiksloka.

Þetta var annað jafntefli þessara erkifjenda á leiktíðinni og United vann 4-3 sigur í bikarleik liðanna fyrir þremur vikum. Klopp var þó sannfærður um að Liverpool hefði átt að vinna í gær enda fékk liðið færin til þess.

Klopp ítrekaði þetta þegar hann var spurður út í titilbaráttuna, en Liverpool er núna fyrir neðan Arsenal á markatölu og eru liðin einu stigi fyrir ofan Manchester City. Liverpool gæti þurft að treysta á að Arsenal missi af stigum gegn United á Old Trafford 11. maí, í næstsíðustu umferð deildarinnar, en Klopp er ekki bjartsýnn á að það gerist.

„Ef við verðum enn í baráttunni þá, þá væri það frábært,“ sagði Klopp en bætti svo við:

„En Arsenal er gott fótboltalið. Ef þeir [United-menn] spila eins og í dag þá mun Arsenal vinna, um það er ég 100 prósent viss. Það hryggir mig að segja það.“

Heimskulegt að stefna á betri markatölu

Markatala Arsenal er níu mörkum betri en Liverpool, nú þegar sjö umferðir eru eftir af deildinni.

„Fólk mun segja okkur að við þurfum að bæta markatöluna en það heimskulegasta sem við gætum gert væri að stefna á það. Slíkt gerist ekki vegna þess að menn ætli sér það. Þú ferð ekki út í leik og skorar átta mörk bara af því að þú vilt það.

Þetta verður alveg ótrúlega sníð allt til enda. Þar til í gær vorum við á toppnum, núna Arsenal, og svo gæti það orðið einhver annar,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×