Fótbolti

Joe Kinnear er látinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Joe Kinnear þjálfaði Newcastle tímabilið 2008-2009.
Joe Kinnear þjálfaði Newcastle tímabilið 2008-2009. Ian Horrocks/Newcastle United via Getty Images

Joe Kinnear, fyrrum þjálfari liða á borð við Newcastle, Nottingham Forest og Wimbeldon, er látinn. Hann var 77 ára þegar hann lést.

Kinnear, sem á sínum tíma lék fyrir Tottenham Hotspur, Brighton & Hove Albion og írska landsliðið, greindist með heilabilun árið 2015 þó ekki hafi verið greint frá veikindunum fyrr en árið 2021.

Hann lék stærstan hluta leikmannaferils síns með Tottenham þar sem hann lék 258 leiki og skoraði tvö mörk á tíu árum hjá félaginu frá 1965-1975. Með liðinu vann hann enska bikarinn einu sinni, enska deildarbikarinn tvisvar og Evrópubikarinn einu sinni. 

Þá lék hann 26 leiki fyrir írska landsliðið á árunum 1967-1975.

Sjö árum eftir að leikmannaferli hans lauk sneri Kinnear sér að þjálfun. Hann hóf þjálfaraferilinn sem aðstoðaþjálfari Al-Shabab í Dúbaí áður en hann þjálfaði indverska landsliðið árið 1984 og landslið Nepal þremur árum seinna.

Hann færði sig svo yfir í félagsliðaþjálfun árið 1989 þegar hann tók við sem bráðabirgðaþjálfari Doncaster Rovers áður en hann þjálfaði Wimbeldon, Luton, Nottingham Forest og nú síðast Newcastle tímabilið 2008-2009. Þjálfaraferill hans spannaði því 26 ár.

Síðasta starf Kinnear innan fótboltans var svo tímabilið 2013-2014 þegar hann var yfirmaður knattspyrnumála hjá Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×