Fótbolti

McBurnie hetja botn­liðsins gegn Chelsea

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Oliver McBurnie bjargaði stigi fyrir Sheffield United.
Oliver McBurnie bjargaði stigi fyrir Sheffield United. Mike Egerton/PA Images via Getty Images

Oliver McBurnie reyndist hetja Sheffield United er liðið nældi sér í 2-2 jafntefli gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Þrátt fyrir að gengi Chelsea á tímabilinu hafi ekki verið upp á marga fiska bjuggust líklgea flestir við því að liðið myndi ekki lenda í miklum vandræðum gegn botnliði Sheffield United.

Thiago Silva kom gestunum í Chelsea yfir strax á 11. mínútu eftir stoðsendingu frá Conor Gallagher, en Jayden Bogle jafnaði metin fyrir heimamenn eftir rétt rúmlega hálftíma leik og staðan var því 1-1 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir náðu þó forystunni á nýjan leik á 66. mínútu þegar Noni Madueke skoraði annað mark Chelsea með föstu skoti innan vítateigs.

Staðan var enn 2-1, Chelsea í vil, þegar venjulegum leiktíma lauk og því stefndi allt í sigur gestanna. Oliver McBurnie var þó ekki á sama máli og hann jafnaði metin fyrir Sheffield United á fjórðu mínútu uppbótartíma þegar hann mokaði boltanum yfir línuna eftir að Cameron Archer hafði skallað boltann fyrir markið.

Niðurstaðan varð því dramatískt 2-2 jafntefli. Chelsea situr enn í níunda sæti deildarinnar, nú með 44 stig eftir 30 leiki. Sheffield United situr hins vegar sem fastast á botninum með 16 stig, níu stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×