Fótbolti

„Mætum til­búnir til að vinna í alla leiki“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bukayo Saka kom Arsenal á bragðið í kvöld.
Bukayo Saka kom Arsenal á bragðið í kvöld. Mike Hewitt/Getty Images) (Photo by Mike Hewitt/Getty Images

Bukayo Saka skoraði fyrsta mark Arsenal er liðið skaust á topp ensku úrvalsdeildarinnar með 3-0 útisigri gegn Brighton í kvöld.

Saka kom Arsenal yfir með marki úr vítaspyrnu eftir rétt rúmlega hálftíma leik. Mörk frá Kai Havertz og Leandro Trossard í seinni hálfleik sáu svo til þess að gestirnir í Arsenal unnu öruggan sigur og eru nú í það minnsta tímabundið á toppi deildarinnar.

Saka segir allt annað að horfa á Arsenal-liðið í ár en á síðasta tímabili þar sem liðið missti frá sér forskot á toppnum.

„Það er ekki gott að hugsa um það sem gerðist á síðasta tímabili,“ sagði Saka í viðtali við Sky Sports eftir leik kvöldsins. „En það er frábært að sjá hvað við höfum lært mikið sem við höfum svo tekið með okkur inn í þetta tímabil. Í svona leikjum þurfum við að drepa leikinn.“

„Á síðasta tímabili vorum við að leggjast niður og fá á okkur mörk seint í leikjum. Það var eitthvað sem gerði stuðningsmennina líka pirraða. Í ár líður okkur betur og við erum öruggari í því sem við gerum og mér finnst við vera með betra lið. Mér líður eins og við mætum tilbúnir til að vinna í alla leiki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×