Innlent

Góðir skór og hlý föt mikil­vægast í fuglaskoðun

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Hópur fólks lagði leið sína í Gróttu fyrr í kvöld.
Hópur fólks lagði leið sína í Gróttu fyrr í kvöld. Vísir

Fuglaskoðun Landverndar og Fuglaverndar fór fram í Gróttu á Seltjarnarnesi fyrr í kvöld. Líffræðingur segir nokkrar vikur þar til allir farfuglarnir verði komnir til landsins. 

„Tilgangurinn með þessari ferð er að bjóða félögum okkar, bæði Landverndar og Fuglaverndar, upp á skemmtilega ferð í náttúruna að skoða fuglalífið,“ segir Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir fræðslustjóri hjá Landvernd.

„Þetta er mín fyrsta fuglaganga sjálf og fuglaskoðun. Og þetta er bara mjög spennandi,“ bætir Vigdís við.

Aron Alexander Þorvarðarson líffræðingur veit nærri allt um fugla. Aðspurður hvort allir farfuglarnir séu mættir til landsins segir hann svo ekki vera

„Ég myndi nú ekki segja að þeir séu allir mættir. Þeir eru svona að tínast inn, lóur og andfuglar líka, helsingi og grágæs, og hitt og þetta. Allt byrjað að detta inn en það eru ennþá nokkrar vikur í að þeir verði allir komnir, hugsa ég.“

Honum skilst að farfuglarnir hafi komið til landsins á tiltölulega venjulegum tíma í ár. 

„Ég er búinn að sjá nokkra sendlinga, og tjald og æðarfugla. Stokkendur og hitt og þetta,“ segir Aron.

„Og líka lóuna!“ bætir Vigdís við.

Hér er fólk með kíki og myndavélar. Þarf maður að hafa góðan búnað í svona ferð?

„Ég myndi segja að það sé fyrst og fremst klæðnaðurinn sem skiptir máli, svo að manni verði ekki kalt. Maður getur alveg séð fugla með einhverjum tiltölulega ódýrum sjónauka eða farið út í eitthvað dýrt. En það skiptir mestu máli að vera með góða skó og góðan fatnað,“ segir Aron.

Hann segir kríurnar eiga að baki lengsta ferðalagið. Fuglarnir noti ýmsar leiðir til þess að vita hvenær sé kominn tími til að halda til Íslands, til dæmis lengd dagsins og segulsvið jarðar. Sumir séu líklega með einskonar innbyggt kort sem vísar þeim veginn. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×