Martraðarbyrjun hjá Liverpool en enduðu leikinn samt á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah fagnar sigurmarki sínu á móti Brighton & Hove Albion á Anfield í dag.
Mohamed Salah fagnar sigurmarki sínu á móti Brighton & Hove Albion á Anfield í dag. Getty/Chris Brunskill

Liverpool setti þar með pressu á bæði Manchester City og Arsenal fyrir stórleik þeirra í dag.

Leikurinn byrjaði þó mjög illa fyrir lærisveina Jürgen Klopp sem fengu á sig mark í upphafi leiks.

Mohamed Salah skoraði sigurmark Liverpool í seinni leiknum en þetta var enn einn endurkomusigur Liverpool liðsins á leiktíðinni.

Liverpool er nú búið að ná í 26 stig út úr leikjum þar sem það hefur lent undir.

Liverpool er nú með 67 stig, þremur meira en Arsenal og fjórum stigum meira en Manchester City.

Liverpool hefur margoft byrjað leiki á því að fá á sig mark snemma og það varð engin breyting á því í þessum leik.

Danny Welbeck kom Brighton í 1-0 strax á annarri mínútu leiksins eftir að boltinn datt fyrir hann og Jurgen Klopp gat ekki annað en brosað kaldhæðnislega á hliðarlínunni. Enn einu sinni lentir undir og leikurinn varla byrjaður.

Liverpool jafnaði metin á 27. mínútu þegar Luis Diaz var réttur maður á réttum stað í teignum eftir hornspyrnu. Mohamed Salah skallað hornspyrnu Dominik Szoboszlai og boltinn fór af varnarmanni til Diaz á markteignum.

Liverpool ógnaði marki Brighton allan seinni hálfleikinn en markið kom ekki fyrr en á 65. mínútu.

Salah fékk þá sniðuga stoðsendingu frá hinum argentínska Alexis Mac Allister inn í teiginn og egypski framherjinn skoraði laglega. 22. markið hans í öllum keppnum á tímabilinu.

Diaz hélt að hann hefði skorað sitt annað mark en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Það munaði bara stóru tánni.

Liverpool fékk fleiri færi en undir lokin var stressið stundum fullmikið hjá leikmönnum liðsins sem gáfu færi á sér. Brighton mönnum tókst þó ekki að nýta sér það og Liverpool fagnaði mjög mikilvægum sigri.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira