Um­fjöllun og við­töl: Valur - Steaua 36-30 | Vals­menn á leið í undan­úr­slit í Evrópu­keppni

Hinrik Wöhler skrifar
Alexander Petersson var markahæstur með átta mörk úr jafnmörgum skotum
Alexander Petersson var markahæstur með átta mörk úr jafnmörgum skotum vísir / diego

Valur tryggði sér sæti í undanúrslitum Evrópubikarsins í handbolta í kvöld með sex marka sigri á rúmenska liðinu Steaua Búkarest. Leikurinn endaði 36-30 og fóru Valsmenn áfram með samanlagt sjö marka mun en Valur sigraði fyrri leik liðanna með einu marki. 

Í fyrri leik liðanna misstu Valsmenn niður nokkurra marka forskot en þeir voru staðráðnir að láta það ekki gerast aftur í kvöld.

Það var jafnræði með liðunum fyrstu tíu mínútur leiksins en eftir það sáu gestirnir frá Rúmeníu ekki til sólar. Steaua fékk tveggja mínútna brottvísun á 10. mínútu og Valsmenn nýttu yfirtöluna afar vel og skoruðu þrjú mörk í röð. Staðan var þá orðin 8-4 og héldu Valsmenn áfram að spila skilvirkan og hraðan sóknarleik út fyrri hálfleik.

Alexander Petersson fékk stærra hlutverk í sóknarleik Valsmanna en oft áður á þessu tímabili og var magnaður í fyrri hálfleik. Hann skoraði mörk utan af velli og úr hægra horninu og voru mörkin orðin sjö talsins þegar blásið var til hálfleiks.

Valur leiddi með níu mörkum í hálfleik, 21-12, og ljóst var að Steaua Búkarest átti afar erfitt verk fyrir höndum í þeim síðari.

Gestirnir frá Rúmeníu nýttu sér klaufagang í sóknarleik Vals til að byrja með í seinni hálfleik en komust þó aldrei nægilega nálægt til að ógna heimamönnum. Það var ekki sama ákefð í sóknarleik Valsmanna í síðari hálfleik en sigurinn var þó aldrei í hættu og endaði leikurinn í sex marka sigri heimamanna, 36-30.

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, nýtti seinni hálfleikinn í að dreifa álaginu og fengu allir leikmenn í leikmannahóp Vals mínútur á vellinum í kvöld.

Af hverju vann Valur?

Ólíkt fyrri leik liðanna þá komust Steaua aldrei inn í leikinn á ný. Valsmenn voru fljótir að svara í sókninni og keyrðu yfir rúmenska liðið í fyrri hálfleik. Það var ljóst í hvað stefndi frá upphafsmínútum leiksins og voru Valsmenn mun sterkari á heimavelli í dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Alexander Petersson átti stórleik í fyrri hálfleik og skoraði átta mörk í leiknum, þar af sjö í fyrri hálfleik. Síðan tók Magnús Óli við keflinu í þeim síðari og endaði leikinn með sjö mörk.

Björgvin Páll Gústavsson var magnaður í markinu ásamt því að skora tvö mörk yfir allan völlinn. Hann reyndist þeim rúmensku afar erfiður og sérstaklega hornamönnum liðsins en þeir áttu í miklum erfiðleikum með að koma boltanum framhjá Björgvini.

Hvað gekk illa?

Skotnýting Steaua var ekki upp á marga fiska í leiknum í kvöld og varði Björgvin Páll eins og berserkur í markinu. Rúmenska liðinu gekk illa að skipta markmanninum inn á ný og voru Valsmenn fljótir að átta sig og skoruðu fjöldann allan af mörkum í tómt markið.

Hvað gerist næst?

Evrópuævintýri Valsmanna heldur áfram og er liðið komið í undanúrslit Evrópubikarsins. Liðið mætir Minaur frá Rúmeníu og fara undanúrslitaleikirnir fram síðustu tvær helgarnar í apríl.

Næsti leikur Valsmanna í deildarkeppninni hér heima fyrir er strax á þriðjudaginn en liðið fer norður og sækir KA heim.

Magnús Óli: „Það small allt“

Magnús Óli Magnússon skoraði 7 mörkVísir/Hulda Margrét

Magnús Óli Magnússon skoraði sjö mörk í leiknum í kvöld og leiddi sóknarlínu Valsmanna í seinni hálfleik. Hann var talsvert ánægðri með frammistöðuna í kvöld samanborið við fyrri leik liðanna.

„Þetta var eins og í fyrri leiknum, við vorum með fimm til sex marka mun í fyrri hálfleik. Við bættum bara ofan á forskotið í dag og þetta var orðið frekar þægilegt í seinni hálfleik. Það var sjö til tíu marka munur og svo endaði þetta í þægilegum sex mörkum.“

„Þetta var klaufagangur hjá okkur í fyrri leiknum og þeir buðu upp á það sama í kvöld en við vorum aðeins búnir að tala okkur til og við vissum hvað áttum að breyta og gera í leiknum í kvöld. Við fórum aðeins á þeirra plan í seinni hálfleik í fyrri leiknum en við gerðum það ekki núna og kláruðum þetta vel. Þetta var mjög fagmannleg frammistaða hjá okkur og keyrðum á þá,“ sagði Magnús skömmu eftir leik.

Magnús átti góðan leik í liði Vals í dag og var næstmarkahæstur heimamanna með sjö mörk.

„Ég var sáttur með frammistöðuna í kvöld, ég hef verið að berjast við smá meiðsli í ökkla en ég náði góðum dampi og skoraði nokkur mörk í röð í seinni hálfleik. Setti líka nokkur þægileg mörk í tómt markið. Svo var Björgvin líka frábær í markinu og var að verja dauðafæri. Alexander sem er 43ja ára er náttúrulega bara ótrúlegur. Það small allt einhvern veginn, vörnin frábær, vinnslan góð og sóknin sömuleiðis,“ sagði Magnús Óli.

Það er ljóst að Valsmenn mæta öðru liði frá Rúmeníu í undanúrslitum og verður ekki annað sagt nema að Magnús sé fullur tilhlökkunar fyrir ferðalaginu.

„Ég er heldur betur spenntur fyrir annarri ferð til Rúmeníu, tíu tíma rútuferð og bara veisla. Þetta er bara snilld. Evrópuferðir eru skemmtilegastar,“ segir Magnús Óli að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira