Erlent

Skammar lög­reglu fyrir að nota lego til að dylja and­lit sak­borninga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan í Murrieta leitar nú nýrra leiða til að dylja andlit sakborninga í færslum á samfélagsmiðlum.
Lögreglan í Murrieta leitar nú nýrra leiða til að dylja andlit sakborninga í færslum á samfélagsmiðlum. AP/Lögreglan í Murrieta

Lögreglan í Murrieta, í suðurhluta Kaliforníu í Bandaríkjunum, hefur verið skömmuð af danska leikfangafyrirtækinu Lego. Það er fyrir að nota myndir af legohöfðum til að dulbúa sakborninga í ljósmyndum sem embættið birtir á samfélagsmiðlum. 

Embættið hefur síðan snemma á síðasta ári límt legohöfuð yfir andlit sakborninga á ljósmyndum sem það hefur birt á netinu. Myndirnar tröllriðu netinu ekki fyrr en í síðustu viku eftir að embættið birti færslu um þessa stefnu sína, sem fjallað var um í fréttum. Í kjölfarið barst ósk frá Lego að lögreglan hætti að nota vörur fyrirtækisins í þessum tilgangi. 

„Hvers vegna eru andlitin dulin?“ sagði í Instagram-færslu sem lögregluembættið birti 18. mars síðastliðinn. Með færslunni fylgdi mynd af fimm mönnum í haldi lögreglu og var búið að þekja andlit þeirra með höfðum legokarla. Í færslunni var svo vísað til lagaákvæðis, sem tók gildi í Kaliforníu um áramótin, sem takmarkar heimild lögreglu til að deila ljósmyndum af föngum á samfélagsmiðlum. 

„Lögreglan í Murrieta hreykir sig af upplýsingagjöf til almennings en tryggir á sama tíma réttindi allra, jafnvel grunaðra,“ sagði í færslunni. 

Fram kemur í umfjöllun Guardian um málið að víða í Bandaríkjunum tíðkist það hjá lögregluembættum að birta myndir af grunuðum glæpamönnum á samfélagsmiðlum, sem hvatningu fyrir nærsamfélagið að hafa augun opin. 

Sérfræðingar hafa þó í auknu mæli bent á neikvæðar hliðar þess að birta ljósmyndir af sakborningum á samfélagsmiðlum. Til dæmis geti fangamyndir haft neikvæð áhrif á möguleika fólks til að fá vinnu og svo framvegis. 

Samkvæmt nýrri löggjöf Kaliforníu þurfa lögregluembætti að fjarlægja myndir af sakborningum af samfélagsmiðlum innan tveggja vikna eftir að þær eru birtar, nema við sérstakar aðstæður, til dæmis ef sakborningur er á hlaupum undan lögreglu eða talinn hættulegur almenningi. Þá er lögreglu bannað að birta myndir af fólki sem ekki hefur sýnt af sér ofbeldishegðun. 

Lögreglan í Murrieta tók ákvörðun innan sinna veggja í janúar í fyrra að birta almennt ekki myndir af andlitum fólks. 19. mars síðastliðinn greindi embættið svo frá því, eftir ákveðið fjölmiðlafár, að Lego hafi óskað eftir því að vörur þeirra yrðu ekki notaðar í þessum tilgangi. 

„Við erum að leita nýrra leiða til þess að geta haldið áfram myndbirtingum með svipuðu móti,“ segir Jeremy Durrant, lögreglumaður í samtali við Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×