Enski boltinn

Man. United sagt vilja fá stjóra Úlfanna í þjálfarateymið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Gary O'Neil fagnar einum af sigrum Wolverhampton Wanderers á leiktíðinni.
 Gary O'Neil fagnar einum af sigrum Wolverhampton Wanderers á leiktíðinni. Getty/ Jack Thomas

Gary O'Neil, knattspyrnustjóri Wolverhampton Wanderers, er á óskalista nýja eiganda Manchester United ef marka má fréttir frá Englandi.

Sir Jim Ratcliffe og félagið hans Ineos eignuðust 27 prósent í Manchester United í febrúar og stefnan er að taka allt í gegn og þar á meðal þjálfarateymið.

Gary O'Neil gæti því mögulega orðið yfirþjálfari United en ekki knattspyrnustjóri félagsins.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um framtíð knattspyrnustjórans Erik ten Hag en heimildarmenn ESPN segja að United sé með þá Gareth Southgate (Enska landsliðið) Roberto De Zerbi (Brighton) Thomas Frank (Brentford) á lista hjá sér.

O'Neil varð knattspyrnustjóri Wolves í ágúst síðastliðnum eftir að Spánverjinn Julen Lopetegui hætti óvænt.

Undir stjórn O'Neil eru Úlfarnir í baráttu um Evrópusæti en í fyrra hélt hann Bournemouth uppi í úrvalsdeildinni á sínu fyrsta ári sem stjóri í deildinni.

Hinn fertugi O'Neil er sagður vita af áhuga Manchester United en yfirmenn félagsins vilja fá tækifæri til að ræða við hann um hver hans framtíðarsýn sé.

O'Neil skrifaði undir þriggja ára samning við Wolves og United þyrfti því væntanlega að kaupa hann af Úlfunum.

O'Neil lék hjá Middlesbrough, Portsmouth og West Ham á ferli sínum en hóf þjálfaraferilinn hjá átján ára liði Liverpool eftir að Michael Edwards réð hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×