Fótbolti

Brast í grát á blaða­manna­fundi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vinícius Júnior eru reglulega kallaður öllum illum nöfnum en ætlar ekki að láta það stöðva sig.
Vinícius Júnior eru reglulega kallaður öllum illum nöfnum en ætlar ekki að láta það stöðva sig. EPA-EFE/Kiko Huesca

Brasilíski framherjinn Vinícius Júnior, leikmaður Real Madríd, gat ekki haldið aftur tárunum á blaðamannafundi þar sem allar spurningar blaðamanna sneru að þeim kynþáttafordómum sem grassera á Spáni.

Spánn tekur á móti Vinícius Júnior og félögum í Brasilíu á Santiago Bernabéu, heimavelli, Real Madríd, í landsleik sem á að vekja athygli á þeim kynþáttafordómum sem enn eru við lýði. Á blaðamannafundi fyrir leikinn brast Vinícius Júnior í grát þar sem hann var að missa viljann til að spila íþróttina sem hann elskar vegna þeirra fordóma sem hann hefur orðið fyrir. 

Hefur lítið sem ekkert verið gert til að tækla fordómana. Þurfti Real Madríd til að mynda nýverið að kvarta yfir dómara sem dæmdi leik liðsins þar sem hann gleymdi að taka fram í skýrslu sinni að Vini Jr. hefði látið vita að hann hefði verið beittur kynþáttafordómum í leiknum.

Sagði Vini Jr. jafnframt að hann muni ekki yfirgefa Spán og ætli að halda áfram að berjast um titla með Real Madríd. Þar með ætlar hann að koma í veg fyrir það sem rasistarnir virkilega vilja.

„Ég er viss um að Spánn sé ekki rasísk þjóð en það eru margir rasistar hér og margir þeirra eru á leikvöngunum. Það verður að breytast því fólk veit í raun ekki hvað rasismi er. Þetta er erfitt, ég er aðeins 23 ára gamall og hef þurft að útskýra hvað kynþáttafordómar eru fyrir fullt af fólki. Hef einnig þurft að útskýra hvernig það hefur haft áhrif á mig og fjölskyldu mína.“

„Síðan ég tilkynnti fyrst um að hafa orðið fyrir kynþáttafordómum þá hafa hlutirnir aðeins versnað. Af því engum er refsað, þeir fá meiri völd og vita að þeir komast upp með að segja hvað sem þeim sýnist um húðlit minn.“

„Þetta er þreytandi því manni líður eins og maður sé einn á báti. Ég hef lagt fram svo margar kvartanir og engum hefur verið refsað.“

Fari svo að Vini Jr. gegn Spáni verður það hans 28 A-landsleikur. Að leiknum loknum snýr hann sér aftur að Real Madríd og baráttu liðsins á toppi La Liga – spænsku úrvalsdeildarinnar – og í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×