Enn ein von­brigðin fyrir United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson fagnar með Zeki Amdouni eftir að sá síðarnefndi jafnaði fyrir Burnley gegn Manchester United.
Jóhann Berg Guðmundsson fagnar með Zeki Amdouni eftir að sá síðarnefndi jafnaði fyrir Burnley gegn Manchester United. getty/Gareth Copley

Manchester United og Burnley skildu jöfn, 1-1, á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í dag. Jóhann Berg Guðmundsson lék síðustu átján mínúturnar fyrir Burnley.

Antony kom United yfir á 79. mínútu með sínu fyrsta deildarmarki á tímabilinu en Zeki Amdouni jafnaði úr vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur.

United er í 6. sæti deildarinnar með 54 stig en Burnley í nítjánda og næstneðsta sætinu með 24 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð fjörugur. Bruno Fernandes, fyrirliði United, var nálægt því að koma sínum mönnum yfir á 19. mínútu en skaut í stöng.

Lyle Foster var líklegastur gestanna en hann átti þrjú skot sem André Onana varði öll.

Seinni hálfleikurinn var öllu rólegri, allavega framan af. Liðin komust oft í álitlegar stöður en náðu ekki að gera sér mat úr þeim.

Á 79. mínútu braut Antony ísinn þegar hann slapp í gegn eftir mistök Sanders Berge og skoraði framhjá Arijanet Muric í marki Burnley.

Þremur mínútum fyrir leikslok jafnaði Amdouni úr víti sem hann fékk sjálfur. Casemiro reyndi að skalla boltann til baka á Onana en skallinn var of laus. Onana kom út úr markinu en sló Amdouni niður. Hann fór sjálfur á punktinn og skoraði.

Bæði lið reyndu hvað þau gátu að skora undir lok leiks en Muric og Onana voru á tánum og vörðu þau skot sem komu á markið. Lokatölur 1-1.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira