Viðskipti innlent

Nýtt fram­boð raf­orku mætir ekki aukinni eftir­spurn fyrr en 2027

Lovísa Arnardóttir skrifar
Smyrlabjargaárvirkjun í Suðursveit.
Smyrlabjargaárvirkjun í Suðursveit. Vísir/Vilhelm

Nýtt framboð raforku mætir ekki aukinni eftirspurn fyrr en mögulega árið 2027. Nýtt framboð getur dugað fyrir umfangsmiklum orkuskiptaverkefnum árið 2030 ef því er ekki ráðstafað í önnur verkefni. Þetta, og meira, kemur fram í nýrri orkuspá Orkustofnunar sem gefin var út í dag.

Í spánni eru tvær sviðsmyndir, grunnspá og háspá, sem gefa innsýn í framtíð raforkumarkaðarins og framtíð orkuskipta. Við útreikninga er litið til mannfjölda, fjölda ferðamanna og fjölda bifreiða á á Íslandi. Sem dæmi er gert ráð fyrir því að samkvæmt grunnspá verði hér um 550 þúsund íbúar árið 2050 en samkvæmt háspá um 600 þúsund. Til samanburðar þá er öll orkunotkun á Íslandi í dag um 20 TWh og nota íslensk heimili aðeins um fimm prósent af þeirri orku.

Í spánni kemur fram að umtalsverð eftirspurn hefur verið eftir raforku síðustu tvö ár vegna bæði stórnotkunar og vegna þess að raforkuverð í heildsölu hefur nálgast verð á öðrum Norðurlöndum. Því er aukinn vilji til að byggja nýja raforkuvinnslu en í mörgum tilfellum hefur undirbúningur virkjanakosta og tenginga þeirra við flutningskerfið gengið hægt frá samþykki í rammaáætlun.

Almennar forsendur við útreikninga í skýrslunni. Mynd/Orkustofnun

En þó kemur einnig fram að svo að hagkvæmni náist í framleiðslu rafeldsneytis þurfi aukinn stuðning við slík verkefni eða að raforkuverð lækki umfram vænta þróun.

„Erfitt getur verið fyrir orkuskiptaverkefni að keppa við aðra stórnotendur á markaði um kaup á raforku sem og við innflutning sem þiggur niðurgreiðslur. Kostnaður endurnýjanlegs eldsneytis er mun hærri en jarðefnaeldsneytis,“ segir í spánni.

Þá kemur einnig fram að orkuskipti í vegasamgöngum og hjá skipum þurfa að ganga umtalsvert hraðar en í núverandi stöðu svo að skuldbindingar á ábyrgð Íslands í loftslagsmálum náist.

Tíu teravött í framleiðslu rafeldsneytis

Eins og fram kom að ofan eru tvær sviðsmyndir, háspá og grunnspá. Í háspá er gert ráð fyrir að bein notkun raforku vegna orkuskipta verði nærri 2,5 teravattstundir (TWh) og allt að 10 TWh vegna framleiðslu rafeldsneytis árið 2050 til jafns við innanlands- og millilandanotkun. 

Hóflegur vöxtur í grunnspá

Í háspá er gert ráð fyrir auknum umsvifum í stórnotkun og miðað við háspár um mannfjölda og komu ferðamanna. Í sviðsmyndinni er gert ráð fyrir hraðari orkuskiptum og að rafeldsneyti verði framleitt í takti við eftirspurn í innanlands- og millilandanotkun.

Í grunnspá er litið til hóflegs vaxtar í umsvifum og núverandi þróunar í orkuskiptum [e. business as usual]. Litið er til miðspáa í mannfjölda og komu ferðamanna. Vöxtur stórnotkunar fylgir svipuðum vexti og undanfarin ár en gert er ráð fyrir að rafeldsneyti verði innflutt á tímabilinu.

Í tilkynningu frá Orkustofnun um spána segir að umtalsverðar umbætur hafi verið gerðar á orkuspánni frá fyrri árum með framboðsspá og verðspá raforku, hagkvæmnisgreiningu rafeldsneytis ásamt bættum gögnum og aðferðarfræði í greiningum vegasamgangna.

Ítarleg fylgigögn og nánari greiningar um hana eru að finna á vef Orkustofnunar. Þá segir að stofnunin hafi einnig hafi reglulega birtingu á skammtímahorfum á raforkumarkaði undir nafninu raforkuvísar, og aukið tíðni gagnabirtinga fyrir raforku og orkuskipti.

Hægt er að nálgast niðurstöður og forsendur Orkuspárinnar hér.

Gagnvirka framsetningu á helstu niðurstöðum Orkuspárinnar má finna hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×