Fótbolti

Cour­tois meiddur á nýjan leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sem stendur verður að teljast gríðarlega ólíklegt að Courtois standi á milli stanganna þegar Belgía mætir til leiks á EM í sumar.
Sem stendur verður að teljast gríðarlega ólíklegt að Courtois standi á milli stanganna þegar Belgía mætir til leiks á EM í sumar. Liu Lu/Getty Images

Litlar líkur eru á því að Thibaut Courtois, markvörður Real Madríd og belgíska landsliðsins, nái að spila leik á þessari leiktíð. Hann sleit krossband í vinstra hné síðasta sumar og hefur nú meiðst að nýju.

Hinn 31 árs gamli Courtois er með bestu markvörðum heims en hann hefur staðið milli stanganna í Madríd frá því 2018. Þar áður lék hann með Genk í heimalandinu, Chelsea á Englandi og með nágrönnum Real í Atlético – á láni frá Lundúnum.

Courtois er engin smásmíð en hann er sléttir tveir metrar á hæð. Hann sleit krossband í vinstra hné síðasta sumar og hefur ekki enn spilað fyrir félags- eða landslið á þessari leiktíð. Hann var byrjaður að æfa á nýjan leik þegar hann meiddist á hægra hné.

Talið er að hann verði frá keppni næstu tvo mánuðina hið minnsta og því litlar sem engar líkur að hann snúi til baka áður en leiktíðinni lýkur. Þetta er ekki aðeins áfall fyrir Real heldur einnig belgíska landsliðið þar sem reiknað var með að markvörðurinn yrði klár áður en EM í Þýskalandi hæfist næsta sumar. Hann hefur spilað 102 A-landsleiki til þessa en nú virðist sem hann bæti ekki við þann fjölda á næstunni.

Eins ótrúlega og það hljómar þá hefur Real í raun ekki saknað Courtois til þessa á leiktíðinni. Madríd trónir á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar og þá er liðið komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem það mætir ríkjandi meisturum Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×