Körfubolti

Rekinn rétt fyrir mót en vann síðan mótið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dan Monson fagnar sigri Long Beach State í Big West mótinu með því að skera netið.
Dan Monson fagnar sigri Long Beach State í Big West mótinu með því að skera netið. AP/Ronda Churchill

Long Beach State er á leiðinni í Marsfárið í bandaríska háskólakörfuboltanum en vikan byrjaði þó ekki vel fyrir þjálfara liðsins.

Dan Monson hefur þjálfað körfuboltalið Long Beach State skólans síðan fyrir hrun (frá 2007) en á mánudaginn var það tilkynnt að hann yrði ekki áfram með liðið eftir þetta tímabil.

Ákvörðunin var sögð sameiginleg en bandarískir miðlar slá því upp að hann hafi í raun verið rekinn.

Monson fékk vissulega að klára tímabilið og Long Beach State tók þátt í Big West Tournament um helgina þar sem í boði var sæti í Marsfárinu fyrir það lið sem fagnaði sigri.

Strákarnir hans Monson stóðu sig frábærlega og unnu mótið. Liðið vann UC Davis 74-70 í úrslitaleiknum en hafði áður unnið UC Riverside og UC Irvine skólana. Það þýðir að þjálfarinn fær að stýra liðinu í fleiri leikjum.

Áður en það var tilkynnt að Monson yrði ekki áfram hafði Long Beach tapað fimm leikjum í röð.

Liðið vann aftur á móti alla þrjá leiki sína í úrslitakeppni Big West deildarinnar og verður því með í Marsfárinu í fyrsta sinn síðan 2011.

„Það hefur verið æðislegt að þjálfa þessa krakka. Þegar Jim Harbaugh spyr hver hafi það betur en hann þá verður einhver að segja honum að svarið er: Dan Monson,“ sagði Monson eftir sigurinn.

„Ég held ekki að þetta verði mitt síðasta ár í boltanum. Ég elska að þjálfa og ég elska lið. Ég þarf nýja áskorun. Svona er bara lífið og nú er það bara næsti kafli,“ sagði Monson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×