Erlent

Fyrsti vara­for­setinn til að heim­sækja þungunar­rofs­þjónustu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Harris heimsótti heilsugæslu Planned Parenthood í gær þar sem konur geta fengið þungunarrof.
Harris heimsótti heilsugæslu Planned Parenthood í gær þar sem konur geta fengið þungunarrof. AP/Adam Bettcher

Kamala Harris varð í gær fyrsti varaforsetinn í sögu Bandaríkjanna til að heimsækja heilsugæslu þar sem boðið er upp á þungunarrof. Enginn forseti hefur heimsótt miðstöð þar sem boðið er upp á úrræðið.

Harris heimsótti heilsgugæslu Planned Parenthood í St. Paul í Minnesota og notaði tækifærið til að gagnrýna harðlega „öfgamenn“ sem freistuðu þess að koma á lögum sem ógnuðu heilsu þungaðra kvenna og stuðluðu að lokun heilgugæslustöðva þar sem konur gætu sótt fjölbreytta heilbrigðisþjónustu.

„Þessar árásir gegn rétti einstaklingsins til að taka ákvarðanir um eigin líkama eru hneykslanlegar og í mörgum tilvikum hreinlega siðlausar,“ sagði Harris. „Hvernig dirfast þessir kjörnu fulltrúar að halda því fram að þeir séu betur til þess fallnir að segja konum hvað þær þurfa, að segja konum hvað er þeim fyrir bestu? Við verðum að vera þjóð sem treystir konum.“

Þungunarrof verður eitt heitasta kosningamálið í forsetakosningunum í nóvember. 

Joe Biden, sem hefur trúar sinnar vegna oft stigið varlega til jarðar í umræðunni um þungunarrof og meðal annars forðast að nota orðið „abortion“, hefur tekið einarða afstöðu með konum og heitið því að tryggja rétt þeirra til þjónustunnar.

New York Times hefur eftir Celindu Lake, sem framkvæmdir skoðanakannanir fyrir Demókrataflokkinn og hefur verið að spyrja þjóðina út í þungunarrof í fjóra áratugi, segir málefnið aldrei hafa verið kjósendum jafn hugleikið.

Nýleg skoðanakönnun KFF, sem er óhagnaðardrifin hugveita sem einblínir á stefnumótun í heilbrigðismálum, sýndi að 86 prósent kvenna á barnseignaaldri töldu að ákvarðanir um þungunarrof ættu að vera á forræði kvenna, í samráði við lækna.

Þá er meirihluti fylgjandi lögum til að tryggja konum réttinn til þungunarrofs, réttinum til að ferðast á milli ríkja til að gangast undir þungunarrof og aðgengi kvenna að þungunarrofi þegar þungun ógnar lífi þeirra og heilsu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×