Enski boltinn

Vilja vinna alla titla fyrir frá­farandi Klopp

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Conor Bradley vill allt fyrir Klopp gera.
Conor Bradley vill allt fyrir Klopp gera. Robin Jones/Getty Images

Liverpool er komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar í knattspyrnu eftir stórsigur á Sparta Prag á Anfield í gær. Hægri bakvörðurinn Conor Bradley segir leikmenn liðsins vilja „vinna alla titla sem í boði eru,“ fyrir fráfarandi þjálfara félagsins, Jürgen Klopp.

Þrátt fyrir að vera 5-1 yfir eftir fyrri leik liðanna þá léku leikmenn Liverpool eins og þeir ættu lífið að leysa. Á endanum vann Liverpool 6-1 sigur og einvígið þar með 11-2. Segja má að þarna hafi verið um að ræða leik kattarins að músinni.

„Klopp er eini þjálfari félagsins sem ég hef þekkt, svo það er grátlegt að sjá á eftir honum,“ sagði hinn ungi Bradley eftir leik.

„Við viljum vinna alla titla sem í boði eru svo við getum kvatt hann á besta mögulega máta,“ bætti hann við.

Liverpool er nú komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Liðið hefur þegar unnið enska deildarbikarinn og er einnig í harðri baráttu við Arsenal og Manchester City um Englandsmeistaratitilinn. Aðeins stig skilur Skytturnar frá Lundúnum og hin tvö liðin að þegar tíu umferðir eru eftir.

Þá mætast Manchester United og Liverpool í 8-liða úrslitum enska bikarsins, FA Cup, á sunnudag. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Upphitun fyrir stórleik sunnudagsins hefst klukkan 15.00 og leikurinn sjálfur hálftíma síðar eða 15.30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×