Enski boltinn

Toppar Man. United ferðast á milli stóru klúbbanna í Evrópu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Højlund ásamt Alejandro Garnach og Kobbie Mainoo en þetta unga þríeyki hefur þótt standa sig vel í vetur. Markmið Manchester United er að byggja upp liðið í kringum þessa efnilegu leikmenn.
Rasmus Højlund ásamt Alejandro Garnach og Kobbie Mainoo en þetta unga þríeyki hefur þótt standa sig vel í vetur. Markmið Manchester United er að byggja upp liðið í kringum þessa efnilegu leikmenn. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Þetta verður mikilvægt sumar fyrir enska fótboltafélagið Manchester United á félagsskiptamarkaðnum og yfirmenn félagsins gera sér vel grein fyrir því.

John Murtough, yfirmaður knattspyrnumála, og Matt Hargreaves, yfirmaður samningamála, ætla líka að vera vel undirbúnir þegar félagsskiptaglugginn opnast á ný.

Félagarnir eru samkvæmt heimildum ESPN nú staddir í mikilli Evrópuferð þar sem þeir fara á milli stóru klúbbanna til að kanna landslagið og greiða fyrir mögulegum samningaviðræðum í sumar.

Þeir hittu Deca, yfirmann knattspyrnumála hjá Barcelona, í hádegismat á mánudaginn og áttu fund með hæstráðendum hjá Atlético Madrid í gær.

Murtough og Hargreaves munu líka samkvæmt sömu heimildum hitta forráðamenn Real Madrid og funda síðan með félögum bæði í Portúgal og á Ítalíu.

Sir Jim Ratcliffe, nýr hlutaeigandi í Manchester United, stýrir nú öllum málum tengdum knattspyrnuhlutanum og félagið á víst pening í nýja leikmenn í sumar þrátt fyrir mikla eyðslu undanfarin ár.

Nýr framherji og nýr miðvörður eru ofarlega á óskalistanum en það er ljóst að félagið þarf að losa fullt af mönnum áður en farið er að bæta nýjum leikmönnum við.

Ratcliffe gæti líka skipt Murtough út en Dan Ashworth, nú í leyfi frá störfum sínum fyrir Newcastle, er sagður vera að taka við hans starfi. Ashworth vill þó halda Murtough áfram hjá félaginu ef marka má heimildir ESPN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×