Fótbolti

Stjóri Lecce skallaði mót­herja og var rekinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Upp úr sauð eftir leik Verona og Lecce í gær.
Upp úr sauð eftir leik Verona og Lecce í gær. getty/Donato Fasano

Ítalska úrvalsdeildarliðið Lecce hefur rekið knattspyrnustjóra sinn sem skallaði andstæðing í leik gegn Verona í gær.

Lecce tapaði 1-0 fyrir Verona og knattspyrnustjórinn Roberto D'Aversa var í vondu skapi undir lok leiksins, svo vondu að hann skallaði Thomas Henry, framherja Verona. Fyrir það fékk hann rauða spjaldið.

Eftir leikinn fordæmdi Lecce stjórann sinn og hann sjálfur sagðist ekki eiga sér neinar málsbætur.

„Ég fór út á völlinn til að reyna að forða mínum mönnum frá því að vera reknir út af því Verona ögraði okkur mikið undir lok leiksins og við lokaflautið,“ sagði D'Aversa.

„Það var ekki sniðugt að gera þetta. Ég veit það. Þetta er ófyrirgefanlegt og ég hef útskýrt mál mitt fyrir Verona. Ég kom ekki inn á völlinn til að gera þetta.“

Í morgun greindi Lecce svo frá því að D'Aversa hefði verið rekinn sem stjóri liðsins.

Lecce er í 15. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 25 stig, einu stigi frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×