Veður

Væta og hlýindi framan af degi en hvessir síð­degis

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu þrjú til tíu stig í dag.
Hiti á landinu verður á bilinu þrjú til tíu stig í dag. Vísir

Allmikil lægð á vestanverðu Grænlandshafi veldur því að austan- og suðaustanáttir leika um landið og fylgir þeim lítilsháttar væta og hlýindi. Lengst af verður þó þurrviðri fyrir norðan.

Á vef Veðurstofunnar segir að seinnipartinn nálgist vaxandi lægðardrag úr suðaustri og hvessi því talsvert og fari að rigna sunnantil í kvöld. Hiti á landinu verður á bilinu þrjú til tíu stig.

„Ferðalangar ættu því að reikna með snörpum vindhviðum við fjöll syðra í kvöld og fram á nótt, í Mýrdal, undir Eyjafjöllum og á Kjalarnesi, svo dæmi séu tekin.

Fremur hægar suðaustanáttir og lítilsháttar væta á morgun (föstudag), en þurrviðri fyrir norðan. Áfram svipað veður um helgina, en kólnar smám saman og má því búast við slyddukenndari úrkomu, einkum á sunnudag,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Suðaustan 8-13 m/s og lítilsháttar rigning, en 5-10 m/s og bjartviðri norðan heiða. Hiti 2 til 9 stig, mildast syðst.

Á laugardag, sunnudag og mánudag: Austlæg eða suðaustlæg átt, 5-13 m/s og bjart með köflum, hvassast og dálitlar skúrir eða slydduél við suður- og austurströndina. Hiti víða 0 til 5 stig, en vægt frost norðan heiða.

Á þriðjudag: Hæg suðvestlæg átt og dálítil rigning eða slydda, en þurrt norðaustantil. Hiti nærri frostmarki.

Á miðvikudag: Breytilegar áttir, skýjað með köflum og él á stöku stað. Hiti kringum frostmark.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×