Fótbolti

Sungu fasistasöngva á öldur­húsi Hitlers

Valur Páll Eiríksson skrifar
Fótboltabullur tengdar Lazio hafa oft verið til vandræða og tengjast öfgahægri öflum.
Fótboltabullur tengdar Lazio hafa oft verið til vandræða og tengjast öfgahægri öflum. Getty

Stuðningsmenn ítalska liðsins Lazio sungu söngva um Adolf Hitler, Benito Mussolini og sýndu fasistakveðjur í München í gær eftir Meistaradeildarleik liðsins við Bayern München. Borgarráðsfulltrúi í Róm fordæmir hegðun þeirra.

Um hundrað stuðningsmenn Lazio voru samankomnir á Hofbräuhaus í München í gær en sá staður var ekki valinn af handahófi. Á þeim stað stofnaði Adolf Hitler formlega Nasistaflokkinn í febrúar árið 1920.

Staðurinn þótti því henta vel til hatursorðræðu stuðningsmannana en þeir hylltu þar bæði Hitler og Mussolini auk þess að lyfta höndum í fasistakveðju. Myndskeið af hegðuninni hefur verið í dreifingu á netinu í dag.

Slíkt er ólöglegt í Þýskalandi, og raunar líka á Ítalíu, en þónokkrir voru teknir fastir vegna hegðunarinnar. Málið er þá til rannsóknar hjá lögreglunni í München.

Alessandro Onorato, borgarstjórnarfulltrúi í Róm, gagnrýnir stuðningsmennina harðlega.

„Þeir sem fóru til München að horfa á leikinn til þess að lofa Mussolini og sýna fasistakveðjur eru til skammar. Þeir dreifa skít á liðið sitt og Rómarborg. Ég fordæmi harðlega og harma það sem ég sá í þessu myndbandi sem er því miður í dreifingu víða um heim,“ segir Onorato. Hér að neðan má sjá myndband af hluta söngvanna.

Stuðningsmenn Lazio hafa löngum verið tengdir öfgahægrisamtökum í Róm og þetta er ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn liðsins eru handteknir fyrir hegðun sem þessa.

Bayern München vann 3-0 sigur á Lazio í leik liðanna í gær og komst áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar með samanlögðum 3-1 sigri í einvígi liðanna.

Hofbräuhaus var mikið stundaður af Íslendingum í janúar síðastliðnum en þar hituðu stuðningsmenn íslenska handboltalandsliðsins jafnan upp fyrir leiki liðsins sem leiknir voru í München.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×